Fréttir

Guðrún Brá komin á lokaúrtökumót fyrir Opna breska
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 15. júlí 2019 kl. 21:47

Guðrún Brá komin á lokaúrtökumót fyrir Opna breska

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, er komin á lokaúrtökumót fyrir Opna breska mótið sem fer fram dagana 1.-4. ágúst. Þetta varð ljóst í dag þegar Guðrún Brá lék á úrtökumóti á Sandy Lodge vellinum í Englandi.

Guðrún Brá lék hringinn á höggi yfir pari og var ein 28 kylfinga sem komust áfram úr mótinu yfir á lokaúrtökumótið.

Guðrún Brá endaði í 9. sæti í mótinu en hún fékk þrjá fugla og fjóra skolla á hring dagsins.


Skorkort Guðrúnar í mótinu.

Opna breska mótið fer eins og fyrr hefur komið fram dagana 1.-4. ágúst og er eitt af risamótunum fimm í kvennagolfinu. Mótið fer fram á Woburn golfvellinum í Englandi en þar fór mótið fram síðast árið 2016 þegar Ariya Jutanugarn fór með sigur af hólmi. Georgia Hall hefur titil að verja eftir fyrsta risatitil hennar í fyrra.

Til þess að Guðrún Brá komist inn á Opna breska verður hún að standa sig vel á lokaúrtökumótinu sem haldið er á Ashridge golfvellinum þann 29. júlí.

Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eru einu íslensku kylfingarnir sem hafa leikið á Opna breska mótinu kvennamegin en Valdís spilaði í fyrra og Ólafía árið 2017. Þá komst Haraldur Franklín Magnús inn í karlamótið í fyrra, fyrstur íslenskra kylfinga.