Fréttir

Guðrún Brá um miðjan hóp eftir fyrsta hring í Bangkok
Guðrún Brá Björgvinsdóttir með pútterinn á fyrsta hring í Bangkok. Ljósmynd: Tristan Jones/LET
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 12. maí 2022 kl. 10:07

Guðrún Brá um miðjan hóp eftir fyrsta hring í Bangkok

Lék á 2 höggum yfir pari

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK, lauk leik nú fyrir skömmu á fyrsta hring Aramco Team Series í Bangkok en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Guðrún lék fyrsta hringinn á 74 höggum eða á 2 höggum yfir pari en leikið er á Thai Country Club.

Aramco Team Series mótin eru meðal stærstu móta hvers keppnistímabils á mótaröðinni. Á mótinu í Bangkok verða leiknir þrír hringir á Thai Country Club . Verðlaunafé nemur einni milljón Bandaríkjadala.

Guðrún Brá lék á 37 höggum eða á einu höggi yfir pari á bæði fyrri níu holunum og seinni níu holunum. Hún fékk einn fugl og tvo skolla á bæði fyrri og seinni níu eða samtals tvo fugla og fjóra skolla á hringnum og situr sem stendur í 46.-50. sæti.

Það er heimakonan Patty Tavatanakit sem leiðir á 6 undir pari eftir fyrsta hringinn.

Staðan í einstaklingskeppninni

Skorkort Guðrúnar Brár

Guðrún Brá verður ræst út á annan hring um hálfþrjúleytið í nótt.

Á Aramco Team Series, er eins og nafnið gefur til kynna einnig leikið í liðakeppni sem fer fram fyrstu tvo keppnisdagana samhliða einstaklingskeppninni en á lokadeginum, eftir niðurskurðinn, er eingöngu keppt í einstaklingskeppni. Þær Marianne Skarpnord frá Noregi og Linda Wessberg frá Svíþjoð mynda lið með okkar konu og einum áhugakylfingi. Lið þeirr er í 14.-17. sæti eftir fyrri hringinn.

Staðan í liðakeppninni

Kylfingur fylgist vel með Guðrúnu Brá og öðrum íslenskum kylfingum á erlendri grundu.