Fréttir

Guðrún og Rúnar klúbbmeistarar GK 2020
Rúnar Arnórsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Mynd: [email protected]
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 12. júlí 2020 kl. 14:34

Guðrún og Rúnar klúbbmeistarar GK 2020

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Rúnar Arnórsson eru klúbbmeistarar Golfklúbbsins Keilis árið 2020. Meistaramót klúbbsins fór fram dagana 5.-11. júlí.

Í karlaflokki var gríðarleg spenna um sigur í mótinu en þeir Rúnar Arnórsson og Axel Bóasson skiptust á að halda forystunni á lokahringnum. Axel hafði eins höggs forystu eftir fugl á 16. holu en þeir voru aftur orðnir jafnir þegar komið var á 18. holu þar sem Rúnar fékk þægilegan fugl á 17. holu.

Á 18. holu sló Rúnar vinstra megin við flötina í innáhögginu en hélt haus og bjargaði pari á meðan Axel þrípúttaði og fyrsti klúbbmeistaratitill Rúnars staðreynd en hann lék hringina fjóra á 11 höggum undir pari.

Birgir Björn Magnússon endaði í þriðja sæti á 3 höggum undir pari.

Í kvennaflokki var ekki jafn mikil spenna en þar hafði Guðrún Brá Björgvinsdóttir mikla yfirburði. Guðrún lék hringina fjóra á 3 höggum yfir pari og varð að lokum 25 höggum á undan Hafdísi Öldu Jóhannsdóttur sem varð önnur. 

Þórdís Geirsdóttir varð í þriðja sæti á 40 höggum yfir pari en hún hafði fyrr í vikunni tekið þátt í flokki kvenna 50-64 ára þar sem hún fagnaði sigri.


Skorkort Guðrúnar í mótinu.


Skorkort Rúnars í mótinu.

Lokastaðan í kvennaflokki:

1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, +3
2. Hafdís Alda Jóhannsdóttir, +28
3. Þórdís Geirsdóttir, +40

Lokastaðan í karlaflokki:

1. Rúnar Arnórsson, -11
2. Axel Bóasson, -10
3. Birgir Björn Magnússon, -3