Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Guðrún stóð sig vel í Svíþjóð
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 24. ágúst 2025 kl. 20:40

Guðrún stóð sig vel í Svíþjóð

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili stóð sig vel á Hills mótinu í Svíþjóð  og hafnaði í 35. sæti og lék á sex höggum yfir pari á 54 holunum.

Guðrún Brá, nýbakaður fjórfaldur Íslandsmeistari eftir sigur á heimavelli fyrir tveimur vikum síðan lék hringina á 72-75-72 en par vallarins er 71.

Í lokahringnum var hún tvo yfir á fyrri níu holunum en fékk svo þrjá fugla á seinni níu en einn tvöfaldan skolla og endaði því hringinn á +1 og mótið í heild á +6.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Þetta var nokkuð stöðug golf en þó óþarfa tvöfaldir skollar þarna á skorkortinu. Ég held bara áfram að bæta minn leik og verð aftur á ferðinni í byrjun september,“ sagði Guðrún Brá.

Guðrún hefur leikið í átta mótum á LET Evrópumótaröðinni á árinu og er í 138. sæti á stigalistanum. Hún er með takmarkaðan þátttökurétt á LET en hefur þó leikið á um helmingi mótanna. Guðrún verður með á tveimur LET mótum í september en í byrjun mánaðarins verður hún með í LET Access móti í Englandi en þar hafa Ragnhildur Kristinsdóttir og Andrea Bergsdóttir keppt í ár og hafa staðið sig vel. Þær voru báðar með í þessu móti í Svíþjóð en komust hvorugar í gegnum niðurskurðinn.