Fréttir

Haraldur Franklín: Ekki annað í boði en að spila grimmt sóknargolf í bráðbana
Haraldur náði frábærum árangri í Hollandi.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 30. ágúst 2021 kl. 12:29

Haraldur Franklín: Ekki annað í boði en að spila grimmt sóknargolf í bráðbana

Haraldur Franklín náði eins og fram hefur komið þeim frábæra árangri að komast í bráðabana um sigur á B-NL Challenge trophy á Áskorendamótaröð Evrópu í gær og var hársbreidd frá sigri. Haraldur þurfti að játa sig sigraðan eftir mikla baráttu á þriðju holu bráðabanans og gera sér annað sætið að góðu ásamt tveimur öðrum kylfingum.

Þetta er næst besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á mótaröðinni en Birgir Leifur Hafþórsson sigraði árið 2017 á móti í Frakklandi.

Kylfingur.is heyrði í Haraldi í morgun og bað hann um að fara yfir atburði gærdagsins.

„Ég byrjaði daginn nokkuð á eftir efstu mönnum. Var í góðu formi og stefndi á að vinna mig upp töfluna. Það var nokkuð hvasst allt mótið og rigndi á köflum lokadaginn.“

„Þetta byrjaði vel og ég var kominn 4 undir eftir 6 holur. Ég fann smá lykil á púttflötinni fyrir hring. Öll púttin mín fóru annaðhvort í eða sleiktu barminn. Svo fann ég að pressan var komin á þegar nokkrar voru eftir.“


„Á síðustu 6 holunum náði ég 4 fuglum en einum skolla. Komst svo í bráðabana þar sem einungis er keppt um 1. sætið. Hinir enda jafnir óháð hvernig þeir spila. Með öðrum orðum það var ekkert annað í boði en að spila grimmt sóknargolf.“

„Ég fékk fugl á fyrstu. Norður Írinn var kominn með par og ég setti pressu á Spánverjann sem átti 4 metra eftir og Danann sem var 1.5 metra frá. Þeir settu báðir í. Á annarri holu fór annað höggið mitt í vatn en ég náði að bjarga pari. Á þriðju fór annað höggið mitt aftur í vatn og ég náði ekki að bjarga pari. Varð að spila grimmt sóknargolf en það gekk ekki að sinni. Mjög auðvelt að finna þetta eina högg sem vantaði á þeim 72 holum".

„Pressan alveg rosaleg þar sem sigurvegarinn á þessu móti flýgur upp listann þar sem 20 efstu komast á Evrópumótaröðina. Svo fá líka sigurvegarar boð á mörg mót á Evróputúrnum. Ég var með nokkra fingur á sigri eftir 1. holu í bráðabana. En vinn bara næsta bráðabana“, sagði Haraldur og hoppaði því næst upp í flugvél þar sem ferðinni er heitið til Birmingham í Englandi þar sem næst mót hefst á fimmtudaginn.

Við árangurinn færðist Haraldur upp í 34. sæti stigalista mótaraðarinnar og á hann góða möguleika á því að gera atlögu að því að komast í hóp 20 efstu með áframhaldandi góðri spilamennsku í síðustu mótunum.
Kristján Ólafur Jóhannesson kylfingur úr GR var aðstoðarmaður Haraldar í mótinu og stóð sig með miklum sóma.
Hér að neðan eru nokkur myndbönd frá hringnum í gær.
Pútt á 18 fyrir fugli og jafna við efstu menn.
Pútt fyrir fugli á fyrstu holu bráðabanans.
Pútt til að bjarga pari á annari holu bráðabanans.