Fréttir

Haraldur Franklín og Bjarki á þriðja hring í Austurríki
Haraldur Franklín Magnús
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 16. júlí 2022 kl. 08:18

Haraldur Franklín og Bjarki á þriðja hring í Austurríki

Andri Þór komst ekki áfram

Haraldur Franklín Magnús úr GR og Bjarki Pétursson úr GKG leika nú þriðja hringinn á Euram Bank Open í Austurríki en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Haraldur Franklín var á 2 höggum undir pari GC Adamstal vallarins eftir fyrstu tvo hringina og Bjarki á 1 höggi undir pari en niðurskurður miðaðist við par.

Bjarki var ræstur út upp úr klukkan hálfsex í morgun á íslenskum tíma og hefur hann heldur gefið eftir. Hann hefur tapað þremur höggum á hringnum og er samtals á 2 höggum yfir pari en hann á 7 holur eftir á hringnum. Sömu sögu er ekki að segja um Harald Franklín sem hefur byrjað frábærlega í dag. Hann var ræstur út klukkan sjö í morgun á íslenskum tíma. Hann fékk örn á 3. braut og fugl á 5. braut og hefur rifið sig upp um rúm 20 sæti og situr í 7.-15. sæti á 5 höggum undir pari, aðeins þremur höggum frá forystusauðnum, Emilio Cuartero Blanco frá Spáni. Efstu menn eru ekki enn farnir út á þriðja hring.

Staðan á mótinu

Andri Þór Björnsson úr GR náði ekki í gegnum niðurskurðinn að þessu sinni. Við fylgjumst með framgöngu okkar manna hér á kylfingi.is og á Facebook.