Fréttir

Haraldur gerir upp tímabilið: Náði að skipuleggja mig betur
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 16. október 2019 kl. 10:00

Haraldur gerir upp tímabilið: Náði að skipuleggja mig betur

Um síðustu helgi tryggði Haraldur Franklín Magnús sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni og þá hefur hann aldrei verið ofar á heimslista karla í golfi. Þegar blaðamaður Kylfings heyrði í Haraldi var hann að rækta fræ en hann er nú staddur á Íslandi þar sem hann ætlar að undirbúa sig fyrir komandi átök.

Aðspurður hvort Haraldur hefði gert eitthvað öðruvísi fyrir þetta tímabil en þau fyrri sagði hann að lykillinn að betri árangri væri líklega betra skipulag yfir tímabilið en hann lagði til að mynda of mikla áherslu á Opna mótið í fyrra þegar hann endaði í 55. sæti á stigalista Nordic Golf mótaraðarinnar.

„Í fyrra þá eyddi ég alltof mikilli orku í British Open, það var eiginlega bara árið mitt, en það sem ég hef lært á síðustu tveimur árum er að spara orkuna betur og skipuleggja pásur, nokkra daga yfir tímabilið alveg sama þó ég sé að spila vel eða illa. Núna fannst mér ég hafa miklu meiri orku út allt tímabilið og þó ég hafi kannski ekki alltaf verið góður þá var þetta miklu jafnara.“

Haraldur hefur einnig lagt töluverða áherslu á stutta spilið og þá sérstaklega fleygjárnin.

„Ég er búinn að bæta mig mjög mikið í öllu sem tengist „wedge-um“ en ég hef aldrei æft mig jafn mikið og núna yfir veturinn. Ég var með Snorra Páli nánast daglega eiginlega í allan vetur.“

Árið 2017 komst Haraldur nálægt því að tryggja sig inn á Áskorendamótaröðina en gaf örlítið eftir á lokasprettinum og endaði tímabilið á Nordic mótaröðinni í 8. sæti. Lærði hann eitthvað af þeirri reynslu?

„Já, það var miklu minna stress núna og miklu meiri orka af því að þegar ég var þreyttur þá tók ég mér pásu en fyrir nokkrum árum var ég svolítið að keyra á engu bensíni í lokamótunum.“

Undirritaður var forvitinn að vita hvernig rútínan væri hjá þessum skemmtilega kylfingi á mótsdegi en hún er ekki alltaf eins hjá Haraldi.

„Það er misjafnt eftir því hvenær ég á rástíma en oftast eru fyrstu rástímar klukkan 7:00 og svo getur maður verið að spila eftir hádegi. Rútínan mín er þannig að ég er vaknaður í síðasta lagi tveimur tímum fyrir hring. Ég man að í sumar fóru allir golfáhugamenn á hliðina því að Dustin Johnson fór ekki á æfingasvæðið fyrir hring en ég sleppi því oft að fara á æfingasvæðið [innskot: til að slá full högg], sérstaklega ef ég er að fara spila í þremur mótum í röð og vill spara orkuna. Mér finnst miklu mikilvægara að hita upp líkamann og stutta spilið og slá kannski 20 bolta.

Síðan finnst mér mikilvægt að núlla mig algjörlega fyrir hring, vera alveg rólegur fyrir hring. Ekki fara á æfingasvæðið, slá illa og halda að dagurinn sé ónýtur.

Ég er með vissar púttæfingar sem ég geri alltaf og ég reyni auðvitað að fara á æfingasvæðið að slá en þegar ég er þreyttur á þriðja keppnisdegi vil ég frekar spara orkuna fyrir völlinn.

Eftir hring byrja ég á svo á því að fá mér að borða og fer yfir hringinn, hvað mátti laga og æfi það sem mátti betur fara kannski í klukkutíma og síðan slæ ég mig niður og tek alltaf eina púttæfingu. Að lokum geri ég svo teygjuæfingar.“

Á Nordic Golf mótaröðinni er skor keppenda uppfært nokkuð reglulega og hefur Haraldur til að mynda leikið í mótum þar sem keppendur skrá skorið sjálfir. Aðspurður sagðist Haraldur vera með ákveðna rútínu þegar kemur að því að skoða skor annarra keppenda í mótunum.

„Ég er með rútínu hvað þetta varðar í móti. Ég skoða stöðuna þegar það eru níu holur eftir af öðrum hringnum til þess að vita hver niðurskurðarlínan er og svo þegar það eru níu holur eftir af mótinu.“


Árangur Haralds á tímabilinu.

Haraldur toppaði svo sannarlega á réttum tíma á Nordic mótaröðinni þetta árið en eftir sjö mót hafði hann einungis fjórum sinnum komist í gegnum niðurskurðinn á mótaröðinni en í síðustu fimmtán mótum komst hann fjórtán sinnum áfram og var oftast í toppbaráttunni. Hvað var það sem olli því?

„Ég missti niðurskurðinn í öðru mótinu sem var mjög svekkjandi en síðan skráði ég mig í tvö mót í maí sem ég ætlaði ekki í. Ég var búinn að lofa sjálfum mér að fara ekki á Bravo [innskot: sjötta mót tímabilsins] þar sem völlurinn hentar mér ekki. Það var frekar heimskulegt því ég mætti þangað frekar neikvæður og þoldi ekki völlinn.“

Haraldur hefur margoft endað í öðru sæti á mótaröðinni, þar á meðal fjórum sinnum núna í ár, en hann á enn eftir að standa uppi sem sigurvegari. Hefur það farið í taugarnar á honum?

„Ég veit ekki hversu oft ég hef endað í öðru sæti þarna en ég hef aldrei klúðrað móti. Í öll skiptin sem ég hef endað í öðru sæti hef ég verið undir pari á lokahringnum og til dæmis í sumar tapaði ég niður tveggja högga forystu þegar ég var einn undir en hinn sem spilaði með mér var fjóra undir. Svo var það mjög svekkjandi í Finnlandi þar sem ég var búinn að skoða stöðuna og sá að ég var jafn efstu mönnum og hugsaði að fuglar á tveimur síðustu holunum myndu tryggja mér sigur eða allavega bráðabana og svo kemur í ljós að einhver fékk fugla á síðustu fimm holunum og vann mig með einu höggi. Annars er alltaf markmiðið mitt að koma mér í toppbaráttuna en mér finnst þetta hafa fallið á móti mér svolítið oft.

Aftur á móti væri ég frekar til í að klúðra síðustu holunni eftir að hafa verið í baráttunni heldur en að vera bara í miðjumoði af því að maður lærir lang mest af því að vera í baráttunni.“

Tímabilinu er ekki lokið hjá Haraldi en hann er enn í baráttu um að komast inn á Evrópumótaröðina sjálfa en til þess þarf hann að komast í gegnum tvö stig í viðbót í úrtökumótunum fyrir mótaröðina. Úrtökumótin fara fram í lok nóvember en Haraldur hefur áður verið í þessari stöðu.

„Ég er búinn að léttast um 8 kíló á þessu tímabili og nú ætla ég að vera með konunni, borða og fara í ræktina og gleyma golfi í nokkra daga til þess að mæta ferskur í lokastigin. Frekar að vera ferskur og hungraður en ofæfður. Síðan mun ég æfa hérna heima en ég er ekki búinn að plana það hvenær ég fer svo út.“