Fréttir

Haraldur komst áfram
Haraldur Franklín Magnús.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 3. október 2020 kl. 18:44

Haraldur komst áfram

Annar dagur Italian Challenge mótsins kláraðist í dag en vegna veðurs í gær þurfti að fresta leik. Þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús eru báðir á meðal keppenda. Aðeins Haraldur komst í gegnum niðurskurðinn.

Haraldur er búinn að leika nokkuð stöðugt golf fyrst tvo hringina. Eftir tvöfaldan skolla á annarri holu mótsins hefur Haraldur nælt sér í átta fugla og aðeins þrjá skolla. Á öðrum hringnum var hann á fjórum höggum undir pari eftir 15 holur en tapaði tveimur höggum á lokaholunum. Hann kom því í hús á 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari, og er hann jafn í 45. sæti á þremur höggum undir pari.

Haraldur getur hæglega komist vel upp töfluna á morgun þar sem þéttur hópur af kylfingum er aðeins einu til fjórum höggum á undan okkar manni. Stefnt er að því að leika tvo hringi á morgun.

Guðmundur hafði þegar hafið leik á öðrum hringnum í gær áður en fresta þurfti leik. Hann var á höggi yfir pari þegar að hann hóf leik í dag. Hann náði sér í einn fugl en fékk tvo skolla á móti og kom því í hús á 74 höggum. Guðmundur lék hringina tvo á þremur höggum yfir pari og endaði jafn í 88. sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Guðmundur Ágúst Kristjánsson.