Fréttir

Haraldur náði ekki að fylgja eftir góðri byrjun - þarf góðan lokasprett
Mánudagur 13. nóvember 2023 kl. 17:51

Haraldur náði ekki að fylgja eftir góðri byrjun - þarf góðan lokasprett

Eftir mjög góða byrjun í fyrstu tveimur hringjunum á lokaúrtökumótinu hefur Haraldur Franklín Magnús aðeins dottið niður stöðutöfluna. Hann var á átta höggum undir pari eftir tvo fyrstu hringina en næstu tvo lék hann á +2. Hann er í 53.-60. sæti af tæplega 80 kylfingum sem komust í gegnum niðurskurðinn eftir 72 holur, á sex undir pari. Tuttugu og fimm efstu vinna sér þátttökurétt á DP mótaröðinni á komandi keppnistíð.

Átta kylfingar í 23.-30. sæti eru á tíu höggum undir pari.

Haraldur lék þriðja hringinn á +2 og fékk aðeins einn fugl á hringnum. Í fjórða hringnum byrjaði hann mjög vel og var þrjá undir pari (-9 í heildina) eftir fimm holur. Hann náði ekki að fylgja þeirri góðu byrjun nógu vel eftir og fékk tvo skolla og einn tvöfaldan skolla en líka einn fugl.

Keppnin er jöfn og mjög hörð á þessu erfiðasta golfmóti sem haldið er.

Staðan eftir 72 holur.