Fréttir

Hatton: Maður hugsar ekki um peninginn
Tyrrell Hatton.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 10. nóvember 2019 kl. 18:31

Hatton: Maður hugsar ekki um peninginn

Tyrrell Hatton sigraði á Turkish Airlines Open mótinu á Evrópumótaröð karla eftir sex manna bráðabana.

Hatton var að vinna sitt fyrsta mót á Evrópumótaröðinni í rúmlega tvö ár og var hann því að vonum sáttur með sigurinn.

„Þetta er óraunverulegt. Ég trúi því í alvöru ekki að ég hafi unnið. Þetta hefur verið erfitt ár fyrir mig utan vallar en í síðasta mánuði fann ég leikinn aftur.

Ég sagði við nokkra í liðinu mínu að ef ég ynni aftur myndi ég svo sannarlega njóta augnabliksins því það er auðvelt að taka þessu sem gefnum hlut.  Auðvitað var frábært að hafa Mick á pokanum og hann hefur gert frábæra hluti þessa helgi. Ég er svo ánægður.“

Verðlaunafé fyrir sigurvegarann í Tyrklandi var það hæsta í sögu Evrópumótaraðarinnar en Hatton fékk 2 milljónir dollara fyrir sigurinn. Hatton gerði þó ekki mikið úr því.

„Maður hugsar ekki um peninginn að neinu leyti. Þetta snýst allt um heiðurinn. Augljóslega eru peningarnir bónus eftir frábæra viku og ég er bara svo ánægður, ég veit ekki hvað ég get sagt meira.“