Fréttir

Hefur aldrei verið jafn lengi frá keppnisgolfi
Bjarki Pétursson. Mynd: pket@vf.is
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 13. janúar 2021 kl. 12:52

Hefur aldrei verið jafn lengi frá keppnisgolfi

Íslandsmeistarinn Bjarki Pétursson GKG er þessa dagana að undirbúa sig fyrir komandi tímabil á Nordic Golf mótaröðinni þrátt fyrir óvissu um hvenær mótaröðin fer aftur af stað.

Bjarki vann sér inn þátttökurétt á mótaröðinni árið 2019 en náði einungis að spila í fjórum mótum á mótaröðinni árið 2020 áður en hlé var gert á mótaröðinni vegna Covid-19.

„Ég spilaði í móti á Evolve mótaröðinni á Spáni í byrjun síðasta árs sem var undirbúningur fyrir fyrstu mótin á Nordic Golf mótaröðinni. Svo spilaði ég í fyrstu fjórum mótunum áður en við Rúnar [Arnórsson] flugum heim til Íslands rétt á undan skellinum,“ sagði Bjarki í viðtali við Kylfing.is.

„Mér gekk þokkalega í þeim mótum, ég held að ég hafi misst niðurskurð í fyrsta mótinu en svo gekk mér vel í næstu mótum. Golfið var mjög gott en það vantaði aðeins upp á stutta spilið.“

Bjarki virðist hafa náð að laga stutta spilið töluvert því hann spilaði magnað golf á Hlíðavelli í ágúst þegar hann fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í höggleik. Auk þess að spila í Íslandsmótinu spilaði Bjarki í einu móti á GSÍ mótaröðinni til viðbótar og á Heimslistamótaröðinni í byrjun sumarsins hér heima.

En er Bjarki betur undirbúinn fyrir tímabilið í ár en í fyrra eftir þetta óhefðbundna keppnistímabil?

„Það er eiginlega mjög erfitt að átta sig á því. Íslenskt golf og erlent getur verið alveg svart og hvítt. Hvenær sem ég spila svo úti þá er orðið langt síðan ég keppti síðast. Maður er búinn að gera fullt, maður hefur aldrei verið svona lengi frá keppnisgolfi. Ég held að ég sé bara vel undirbúinn og búinn að æfa vel.

Ég hef lagt mikla áherslu á líkamsrækt og að vinna í sjálfum mér, það er að segja andlega hlutanum. Ég hef lagt meiri áhersla á það en að slá, en ég hef þó verið að vinna í smá tæknibreytingum í sveiflunni og fer að leggja meiri áherslu á stutta spilið núna í framhaldinu.“

Útlit er fyrir að hægt verði að spila hefðbundið golf á Nordic Golf mótaröðinni í ár og reiknar Bjarki með að byrja að keppa á þeirri mótaröð strax í vor en þó er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Þá er Bjarki einnig með takmarkaðan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni eftir fínan árangur í úrtökumótunum fyrir Evrópumótaröðina árið 2019.

„Ég reikna með að spila á Nordic mótaröðinni, maður bíður bara og sér þróunina. Mögulega verður auðveldara fyrir mig að komast á Áskorendamótaröðina eftir úrtökumótið árið 2019. Ég er þar með þátttökurétt í flokki 16 og fæ oft að vita seint að ég komist inn í mótin. Ef þetta þróast þannig að ég komist í nokkur mót á Áskorendamótaröðinni þá legg ég áherslu á hana en annars Nordic. Áherslan yrði alltaf á að spila frekar úti en að spila hér heima, jafnvel ef Íslandsmótið væri á sama tíma.“