Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Hefur meiri tíma í golfið eftir að pólitíkin fór á kantinn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 28. júlí 2025 kl. 14:25

Hefur meiri tíma í golfið eftir að pólitíkin fór á kantinn

„Ég lék mér eitthvað sem gutti í golfi en mínar íþróttir voru knattspyrna og handbolti. Það var ekki fyrr en ég fór í nám til Bandaríkjanna sem ég byrjaði fyrir alvöru í golfi og eftir að ég hætti í pólitíkinni hef ég haft mun meiri tíma aflögu og var með tvö markmið í golfinu í sumar, er búinn að ná öðru þeirra,“ segir fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson. Hann var einn 72 sem tók þátt í boðsmóti Seinni níu sem fram fór á Húsatóftavelli á dögunum. 

Leikinn var betri bolti og var liðsfélagi Bjarna, körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson en börn þeirra eru hjón og félagarnir deila afahlutverkunum. Að sögn Bjarna var verkaskiptingin í mótinu ekki alveg jöfn.

„Kiddi dró vagninn í dag, það verður að segjast eins og er. Ég náði mér ekki nógu vel á strik en ég hafði afskaplega gaman af þessu. Ég hef áður spilað með Kidda, alltaf gaman að spila með svo góðum kylfingi. Sjálfur er ég með um 25 í forgjöf en annað markmiða sumarsins var að koma mér niður fyrir tuttugu. Ég er búinn að ná hinu, þ.e. að koma konunni í golfið og þar sem nóg er eftir að sumrinu er ég bjartsýnn á að hinu markmiðinu verði líka náð.“

Örninn 2025
Örninn 2025
Liðsfélagarnir Kristinn Óskarsson og Bjarni Benediktsson.

„Ég byrjaði eiginlega ekki í golfi fyrr en ég fór í nám til Bandaríkjanna snemma á þessari öld. Ég hafði eitthvað aðeins prófað sem gutti í Garðabænum en aðrar íþróttir áttu sviðið þá. Ég lék knattspyrnu og handbolta en ég þóttist nú vita að golfið tæki við eftir að ferlinum í hinum íþróttunum lyki. Undanfarin ár hefur bara enginn tími gefist fyrir golfið, það var mikið að gera í pólitíkinni en eftir að ég setti punkt aftan við þann kafla gafst meiri tími og blessunarlega vildi konan mín fylgja mér í sportið. Hún hafði einhvern tíma eignast golfsett en var ekki sátt við það og ég varð mjög ánægður þegar hún fór fram á að fá almennilegar græjur, það þýddi að hún myndi fá aukinn áhuga. Það er frábært að eiga þetta áhugamál saman, ég hef heyrt að golfið sé annað hvort hjónadjöfull eða sameiningartákn. 

Það er búið að vera frábært að endurnýja kynnin við þessa yndislegu íþrótt og er frábært að sjá sprenginguna sem hefur orðið í golfi á Íslandi. Manni leið eins og maður væri ekki maður með mönnum ef maður gat ekki lýst síðasta golfhring. Það var alltaf mikill keppnismaður í mér og ég finn hvað ég vil bæta mig því golfið er auðvitað miklu skemmtilegra, þeim mun betri sem maður er. Byrjum á að koma okkur niður fyrir 20 í forgjöf, sjáum svo til,“ sagði Bjarni að lokum.