Fréttir

Heimslisti karla: Herbert upp um 144 sæti eftir sigurinn í Dúbaí
Lucas Herbert.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 27. janúar 2020 kl. 17:00

Heimslisti karla: Herbert upp um 144 sæti eftir sigurinn í Dúbaí

Heimslisti karla hefur verið uppfærður og er Brooks Koepka enn í efsta sætinu. Rory McIlroy, sem er í öðru sæti, tókst ekki að ná efsta sætinu af honum en með sigri á Farmers Insurance Open mótinu hefði efsta sætið verið hans. Staða 10 efstu mann er óbreytt en bilið milli Koepka og McIlroy er aðeins rúmlega 0,3 stig og verður því mikil barátta um efsta sætið næstu vikur og mánuði.

Koepka hefur nú verið samfleytt í 37 vikur í efsta sætinu og samtals hefur hann verið þar í 46 vikur. Hann er nú einn í 10. sæti yfir þá kylfinga sem setið hafa lengst í efsta sætinu en hann vantar fjórir vikur í viðbót til að jafna við Ian Woosnam sem sat á sínum tíma 50 vikur í efsta sætinu.

Sigurvegari helgarinnar á Evrópumótaröð karla, Lucas Herbert, fer upp um 144 sæti. Eftir sigurinn á Omega Dubai Desert Classic mótinu er Herbert nú kominn í 79. sætið eftir að hafa verið í 223. sæti fyrir helgina. Fyrir nákvæmlega ári síðan, eða eftir Omega Dubai Desert Classic mótið í fyrra, komst Herbert í 73. sætið en síðan þá hefur hann nánast verið í frjálsu falli þar til í dag.

Marc Leishman fagnaði sínum fimmta sigri á PGA mótaröðinni í gær þegar að hann bar sigur úr býtum á Farmers Insurance Open mótinu. Við sigurinn fór Leishman upp um átta sæti og situr hann nú í 20. sæti eftir að hafa verið í 28. sæti fyrir helgina.

Heimslistann í heild sinni má nálgast hérna.