Fréttir

Heimslisti karla: Johnson búinn að jafna McIlroy
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 30. nóvember 2020 kl. 08:46

Heimslisti karla: Johnson búinn að jafna McIlroy

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er efstur á heimslista karla í golfi og hefur nú vermt efsta sætið í 106 vikur en nýr listi var birtur á sunnudaginn eftir mót helgarinnar á stærstu mótaröðum heims.

Johnson hefur nú jafnað árangur Norður-Írans Rory McIlroy sem hefur einnig verið í efsta sætinu í 106 vikur en það er þriðji besti árangur kylfings á heimslistanum frá stofnun hans.

Tiger Woods trónir á toppnum en hann hefur verið í 683 vikur í efsta sætinu og því nokkuð ljóst að Johnson mun ekki jafna þann árangur en til þess þyrfti Johnson að vera samfleytt í efsta sætinu þangað til í janúar árið 2032.

Hér er hægt að sjá stöðuna á heimslista karla í golfi.

Flestar vikur í efsta sæti heimslistans frá stofnun árið 1986:

1. Tiger Woods, 683 vikur
2. Greg Norman, 331
3. Rory McIlroy, 106
3. Dustin Johnson, 106
5. Nick Faldo, 97
6. Seve Ballesteros, 61
7. Luke Donald, 56
8. Jason Day, 51
9. Ian Woosnam, 50
10. Brooks Koepka, 47