Fréttir

Heimslisti karla: Bezuidenhout aftur á meðal 50 efstu
Christiaan Bezuidenhout.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:44

Heimslisti karla: Bezuidenhout aftur á meðal 50 efstu

Suður-Afríski kylfingurinn Christiaan Bezuidenhout fagnaði sínum öðrum titli á Evrópumótaröðinni um helgina þegar hann sigraði á Alfred Dunhill meistaramótinu.

Bezuidenhout byrjaði lokadaginn þremur höggum frá forystunni en spilaði á 69 höggum og endaði á 14 höggum undir pari, fjórum höggum á undan næstu kylfingum.

Með sigrinum hækkar Bezuidenhout upp í 41. sæti á heimslista karla í golfi en fyrir helgi var hann í 61. sæti. Með þeim árangri tryggði hann nánast þátttökuréttinn sinn á Masters mótinu á næsta ári en 50 efstu á heimslistanum í lok ársins eru á meðal þeirra sem komast í mótið.

„Ég er mjög ánægður að hafa klárað þetta,“ sagði Bezuidenhout þegar sigurinn var í höfn. „Leopard Creek hefur alltaf verið sérstakur staður fyrir mér og völlurinn var frábær þessa vikuna. Þetta gerist ekki mikið betra. Mig hefur alltaf langað að vinna hér.“

Hér er hægt að sjá stöðuna á heimslista karla í golfi.