Fréttir

Heimslisti karla: Taylor og Lee taka stór stökk
Min Woo Lee.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 10. febrúar 2020 kl. 12:00

Heimslisti karla: Taylor og Lee taka stór stökk

Sigurvegarar helgarinnar á stærstu mótaröðum heims í karlaflokki taka báðir stórt stökk á heimslista karla sem var uppfærður á sunnudagskvöldið.

Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Min Woo Lee, sem sigraði á ISPS Handa Vic Open, og Nick Taylor sem sigraði á AT&T Pebble Beach Pro/Am.

Lee, sem var fyrir helgina í 227. sæti, er nú kominn upp í 131. sæti. Um er að ræða bestu stöðu Lee á listanum frá upphafi en sigurinn um helgina var hans fyrsti á Evrópumótaröðinni.

Taylor var á mjög svipuðum stað fyrir helgi, nánar tiltekið í 229. sæti, og fór alla leið upp í 101. sæti með sigri sínum enda eru meiri stig í boði fyrir sigur á PGA mótaröðinni. Þetta var annar sigur Taylor á PGA mótaröðinni en sá fyrsti kom árið 2014 á Sanderson Farms Championship.

Hér er hægt að sjá stöðuna á heimslista karla í heild sinni.


Nick Taylor.