Fréttir

Hovland færist skrefi nær þátttökurétti á Masters
Viktor Hovland.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 24. febrúar 2020 kl. 23:18

Hovland færist skrefi nær þátttökurétti á Masters

Viktor Hovland varð í gær fyrsti Norðmaðurinn til að sigra á PGA mótaröðinni þegar hann sigraði á Puerto Rico Open sem fór fram á sama tíma og Heimsmótið í Mexíkó.

Með sigrinum tryggði Hovland sér meðal annars boð í Players mótið og þátttökurétt á PGA mótaröðinni til ársins 2022 en hann öðlaðist hins vegar ekki þátttökurétt á Masters mótinu sem fer fram í apríl.

Þar sem Puerto Rico Open var haldið á sama tíma og Heimsmótaröðin fær Hovland ekki boð á Masters mótið líkt og aðrir sigurvegarar PGA mótaraðarinnar undanfarna mánuði en öll von er þó ekki úti fyrir Hovland sem hefur enn tækifæri til að spila sig inn í fyrsta risamót ársins.

Hinn 22 ára gamli Hovland komst um helgina upp í 60. sæti heimslistans og verður því líklega með á Heimsmótinu í holukeppni sem fer fram í mars. Takist honum svo að komast upp í topp-50 í heiminum þegar heimslistinn verður uppfærður þann 30. mars verður sæti hans á Masters mótinu tryggt.

Hovland keppti á Masters mótinu í fyrra sem áhugamaður og endaði þá í 32. sæti, efstur áhugamanna.