Fréttir

Húsatóftavöllur í Grindavík opnar á laugardaginn
Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 16. maí 2024 kl. 09:37

Húsatóftavöllur í Grindavík opnar á laugardaginn

„Eins og staðan er núna treystum við okkur ekki til að hleypa inn á brautir 13-17 á bökkunum og því verða verða þær holur lokaðar fyrir allri umferð til að byrja með,“ segir Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur. Völlurinn mun bara opna fyrir klúbbmeðlimi til að byrja með en unnið er að því að völlurinn opni fyrir almenning og er samtal í gangi á milli GG og yfirvalda þar af lútandi.

Helgi og formaður GG, Hávarður Gunnarsson, voru nýkomnir úr verslunarferð til Reykjavíkur og voru að fylla á kæla og hillur í golfskálanum og gera klárt fyrir opnunina á laugardag þegar blaðamann bar að garði. Helgi fór yfir hvernig veitingasölunni verður háttað í sumar.

„Við ætlum í fyrsta skipti í langan tíma að sjá sjálfir um veitingasöluna, þ.e. að vera ekki með aðila sem rekur hana sjálfur. Það þýðir að matseðillinn mun einfaldast, við verðum ekki með opið eldhús en getum boðið upp á pylsur og samlokur af öllum gerðum, alla helstu drykki og ég trúi því að þessar breytingar muni koma vel út fyrir klúbbinn, ekki síst fjárhagslega,“ sagði Helgi.

Hávarður fór yfir hvað klúbburinn er búinn að missa af miklum tekjum þetta vorið og sumarið.

„Við höfum alltaf getað opnað mun fyrr en vellirnir á höfuðborgarsvæðinu, á sumardaginn fyrsta í síðasta lagi og hefur umferðin undanfarin ár verið mjög mikil. Ég held að það sé nokkuð ljóst að við hefðum tekið inn tíu til fimmtán milljónir ef við hefðum getað opnað á sama tíma en við það var ekki ráðið eðlilega. Við erum ánægðir með að geta þó opnað núna og þó svo að bakkarnir verði ekki opnaðir strax munu golfarar geta notið sín á efri vellinum. Það eru engar sjáanlegar skemmdir þar og við viljum meina að völlurinn komi einstaklega vel undan vetri. Ég get ekki beðið eftir að slá fyrsta höggið,“ sagði Hávarður.

Húsatóftavöllur aldrei verið betri

Helgi er líka vallarstjóri á Húsatóftavelli.

Ástandið á vellinum núna er betra en í kringum meistaramótið í júlí í fyrra, ég hef aldrei séð Húsatóftavöll svona góðan á þessum árstíma. Við hefðum ekki getað opnað á sumardaginn fyrsta eins og venjulega þó svo að þetta ástand í Grindavík væri ekki til staðar, tíðin bauð ekki upp á það þá en undanfarið höfum við fengið góða blöndu af heitum dögum og rigningu og það er það besta fyrir golfvöll. Við bárum á allt í fyrra og það er að skila sér núna og verður gaman að sjá hvernig völlurinn verður þegar komið verður fram á mitt sumar. Ég tók mynd fyrir stuttu inni á gríni og sendi á félaga mína, þeir spurðu allir hvar á Spáni í ég væri, það segir eitthvað.

Mér líst vel á komandi sumar, Grindvíkingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp og er mikill hugur í klúbbmeðlimum. Við ætlum að gera það besta úr þessari stöðu, það er ekkert annað í boði. Vonandi munum við geta opnað fyrir almenning sem fyrst, lokunarpóstarnir eru ennþá í gangi en ég trúi ekki öðru en við getum samið við yfirvöld um að golfarar geti komið til okkar og spilað. Veitingaaðilar í Grindavík geta tekið á móti hópum, við erum líka veitingaaðilar og ég sé því ekkert til fyrirstöðu að golfarar sem sýna fram á að eiga pantaðan rástíma hjá okkur, geti ekki komist í gegnum lokunarpóstinn og notið sín á Húsatóftavelli. Ég hlakka til að taka á móti golfurum í sumar, ég gæti trúað að mikil ásókn verði á völlinn,“ sagði Helgi að lokum.

Hávarður Gunnarsson, formaður Golfklúbbs Grindavíkur.