Fréttir

Hvað gerir DeChambeau eftir vonbrigðin í fyrra?
Bryson DeChambeau púttar hér á 16. holu Augusta National árið 2016.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 6. apríl 2021 kl. 11:35

Hvað gerir DeChambeau eftir vonbrigðin í fyrra?

Rétt eftir sigurinn á Opna bandaríska mótinu í fyrra hófst umræða um að Bandaríkjamaðurinn Bryson DeChambeau myndi leika sér að Augusta National vellinum þegar Masters mótið færi fram í nóvember.

Umræðan var jafnvel þannig að spurningin var ekki hvort DeChambeau myndi vinna heldur með hversu mörgum höggum. Hversu mörg met myndi hann slá? Einhver tölfræði met? Eins og mótið þróaðist var niðurstaðan sú að DeChambeau bætti engin met.

DeChambeau endaði höggi á eftir hinum 63 ára gamla Bernhard Langer sem vann Masters mótið tvisvar áður en DeChambeu fæddist. Útskýringin var sú að DeChambeau var veikur í mótinu.

„Ég fór til nokkurra lækna til að reyna að komast að því hvað málið væri,“ sagði hann í janúar. „Ég fór í nokkrar segulómanir, ég fór til eyrnalæknis, fór í sjónmælingu og heyrnarmælingu og meira að segja ómskoðun á hjarta og hálsi.

Ég get sagt þér að ég hef stundað mikla heilaþjálfun og framhlið heilans míns var að vinna mjög mikið. Það var það sem gaf mér þessi skrítnu einkenni. Þetta var eins og brjálæðisleg yfirvinna.

Þetta tók sinn toll. Ég held að það hafi ekki verið nákvæmlega þessi hlutur en frekar samblanda af nokkrum hlutum sem stigmögnuðust í heilanum sem vann of mikið og gaf eftir.“

Hvað sem gerist á Augusta National í ár verður fróðlegt að fylgjast með Bryson DeChambeau sem er einn umtalaðasti golfari heims um þessar mundir. Takist honum að sigra á sunnudaginn verður það annar risameistaratitill hans á átta mánuðum og líklega ekki sá síðasti.