Ingi Þór, Hjalti Kristján og Eva sigruðu á Icelandic Midnight Junior Challenge
Icelandic Junior Midnight Challenge, alþjóðlegt unglingamót, sem er hluti af Global Junior Golf mótaröðinni, fór fram á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar dagana 27.-29. júní sl. Rétt rúmlega 60 keppendur tóku þátt, þar af um 20 erlendir kylfingar.
Global Junior Golf mótaröðin er sterk alþjóðleg mótaröð en fjölmargir íslenskir kylfingar hafa tekið þátt í mótum á mótaröðinni undanfarin ár. Gestirnir komu víða að og sú fjölskylda sem kom lengst að kom alla leið frá Los Angeles.
Heimamaðurinn, Ingi Þór Ólafson úr GM sigraði í drengjaflokki en hann lék hringina þrjá á 213 höggum (65-75-73) eða samtals á 3 höggum undir pari vallarins, einu höggi betur en Hugo Duquaine frá Belgíu. Heiðar Snær Bjarnason úr GOS, Aron Ingi Hákonarson úr GM og Markús Marelsson úr GK voru jafnir í þriðja sæti.
Lynn van der Sluijs frá Hollandi sigraði í stúlknaflokki en hún lék hringina þrjá á 222 höggum (74-74-74) eða samtals á 6 höggum yfir pari vallarins, fjórum höggum betur en Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR. Hinar hollensku Minouche Rooijmans og Rosanne Boere voru jafnar í þriðja sæti. Hollensku stúlkurnar eiga sæti í stúlknalandsliði Hollands sem keppir á EM á Urriðavelli í næstu viku.
Í flokki drengja 14 ára og yngri sigraði heimamaðurinn, Hjalti Kristján Hjaltason úr GM en hann lék hringina þrjá á 228 höggum (79-74-75) eða samtals á 12 höggum yfir pari vallarins, sjö höggum betur en Raphael Aigner frá Austurríki. Arnar Daði Svavarsson úr GKG hafnaði í þriðja sæti.
Í flokki stúlkna 14 ára og yngri sigraði heimakonan, Eva Kristinsdóttir úr GM en hún lék á 237 höggum (85-73-79) eða samtals á 21 höggi yfir pari, tveimur höggum betur en Þóra Sigríður Sveinsdóttir úr GR. Pamela Ósk Hjaltadóttir úr GM hafnaði í þriðja sæti.