Fréttir

Íslandsmeistaratitillinn það eftirminnilegasta frá 2023
Fimmtudagur 4. janúar 2024 kl. 17:20

Íslandsmeistaratitillinn það eftirminnilegasta frá 2023

Ragnhildur Kristinsdóttir var kjörin kvenkylfingur ársins hjá GSÍ en hún náði að landa sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli á frábæru Íslandsmóti á Urriðavelli í ágúst á síðasta ári. Hún reyndi fyrir sér í atvinnumennskunni, tók þátt í lokaúrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina og stefnir á að gera betur þar á þessu ári.

Ragnhildur þurfti ekki að hugsa sig lengi um áður en hún svaraði hinni dæmigerðu spurningu um hvað hefði verið eftirminnilegast frá árinu 2023. „Að ná loksins að landa þessum Íslandsmeistaratitli, eftir að hafa verið ansi nærri því í nokkur skipti, var virkilega ánægjulegt og klárlega það eftirminnilegasta á síðasta ári hjá mér. Ef það hefði ekki verið það eftirminnilegasta, hefði gengið á öðrum mótum heldur betur þurft að vera frábært. Íslandsmótið var líka svo frábærlega heppnað, spilað við algerar kjöraðstæður og mér finnst gaman að horfa eftir á mótið í sjónvarpinu, Rúv stóð sig virkilega vel með það. Ég held að það verði erfitt að toppa þetta mót, að fá svona veður alla dagana, þetta var æðislegt. Spilamennska mín var nokkuð jöfn alla dagana og það var mjög gaman að ná loksins að vinna. Að vera kjörin kvenkylfingur ársins hjá GSÍ var svo eins og berið ofan á kökuna, mikill heiður að hljóta þessa nafnbót, ég var að fá þessa viðurkenningu í fyrsta skipti.“

Evróputúrinn

Ragnhildur hefur verið að reyna komast á Evróputúrinn en gengið síðasta sumar var upp og ofan segir hún. „Ég náði mörgum góðum hringjum en náði ekki að sýna nægilega mikinn stöðugleika í gegnum heil mót. Ég sá alveg þá hringi sem ég spilaði vel að ég get keppt á þessum mótum, þarf bara að bæta stöðugleikann. Oft var ég líka að spila vel án þess að ná að skora, t.d. á lokaúrtökumótinu í Marokkó, sló ég vel en náði bara ekki að skora. Það er oft svo stutt á milli þess að vera tveimur til fjórum höggum yfir pari, eða á nokkrum höggum undir. Þær systur Ef og Hefði hafa bara aldrei verið góðir liðsfélagar, ef allir hefðu þær alltaf með sér í liði þá væri þessi íþrótt auðveldari. Það er kannski fegurðin við þennan yndislega leik, maður gengur aldrei að neinu vísu og ég þarf bara að æfa mig meira og bæta mig, þá hef ég fulla trú á að ég eigi fullt erindi inn á atvinnumótaröðina. Það helsta sem ég þarf að bæta er einfaldlega stöðugleiki, að geta mætt reglulega á mót og spilað undir pari. Ég fór í smá sveiflubreytingar fyrir um átján mánuðum og finn hvernig sú vinna er að skila sér. Auðvitað var frábært að ná að landa Íslandsmeistaratitli í miðju slíku ferli og það segir mér að ég er á réttri leið, ég get ekki beðið eftir að hefja næsta tímabil,“ segir Ragnhildur.

Höggi á 12. holu í Íslandsmótinu eftirminnilegust

Áramót eru tíminn til að rifja upp eftirminnileg atvik frá liðnu ári og horfa fram á veginn. Ragnhildur náði að rifja upp eftirminnileg högg frá árinu. „Ég verð að fara aftur á Oddinn í Íslandsmótið, ég er svolítið föst þar. Upphafshöggið og annað höggið á tólftu holu á lokadeginum eru eftirminnileg. Ég lenti í glompu eftir upphafshöggið og átti 180 metra eftir en náði frábæru höggi úr glompunni og kom mér í færi á erni, mér fannst mómentið færast aðeins mér í hag eftir þetta. Varðandi markmiðin í sumar þá var léttirinn við að ná loksins að vinna Íslandsmeistaratitilinn það mikill að það er ekki eins stórt markmið hjá mér í sumar. Auðvitað fer ég í öll mót til að vinna þau en fyrst maður náði loksins að landa þeim stóra, þá er pressan ekki eins mikil. Markmiðin mín eru kannski meira að enda í topp sex á stigalistanaum á Access mótaröðinni og koma mér í betri séns á stóru Evrópumótaröðinni. Ég mun reyna finna mér einhver mót erlendis í vetur og svo fer ég í æfingaferðir til Spánar með landsliðinu og GR. Það er nauðsynlegt að komast út og spila alvöru golf, í stað þess að vera slá á mottunum hér heima. Ég hlakka til tímabilsins og stefni á að standa mig vel,“ sagði Ragnhildur að lokum.