Fréttir

Íslandsmótið í holukeppni: Sigurvegarar síðasta árs með fullt hús stiga
Saga Traustadóttir og Rúnar Arnórsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 19. júní 2020 kl. 19:45

Íslandsmótið í holukeppni: Sigurvegarar síðasta árs með fullt hús stiga

Fyrstu tvær umferðir Íslandsmótsins í holukeppni fóru fram í dag við frábærar aðstæður hjá Golfklúbbi Akureyrar. Alls eru leiknar þrjár umferðir í riðlakeppni mótsins en á morgun kemur í ljós hvaða kylfingar komast áfram í 8-manna úrslit keppninnar.

Rúnar Arnórsson hefur titil að verja í mótinu í karlaflokki en hann varð fyrst Íslandsmeistari í holukeppni árið 2018 og svo aftur árið 2019. Rúnar vann báða sína leiki í dag en þarf engu að síður að hafa betur gegn Ragnari Má Garðarssyni á morgun til þess að halda áfram.

Athygli vekur að Kristófer Karl Karlsson, sem leikur í riðli 3, hafði betur gegn atvinnukylfingnum Haraldi Franklín Magnúsi í annarri umferð og er því í kjörstöðu til að komast áfram á morgun. Til þess að komast áfram þarf hann hins vegar að vinna eldri bróður sinn, Theodór Emil, en sá síðarnefndi getur einnig komist áfram með sigri.

Í karlaflokki eru eftirfarandi kylfingar allir með fullt hús stiga eftir fyrsta keppnisdaginn:

Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Axel Bóasson
Kristófer Karl Karlsson
Sigurður Bjarki Blumenstein
Aron Snær Júlíusson
Jóhannes Guðmundsson
Andri Þór Björnsson
Rúnar Arnórsson

Í kvennaflokki voru fá óvænt úrslit en atvinnukylfingarnir unnu alla sína leiki nokkuð sannfærandi. Saga Traustadóttir, sem hefur titil að verja í mótinu, er ein þeirra sem vann báða leiki sína í dag en hún spilar úrslitaleik við Berglindi Björnsdóttur á morgun um sæti í 8 manna úrslitunum.

Alls eru 12 kylfingar í kvennaflokki með fullt hús stiga fyrir lokaumferðina í riðlakeppninni en það eru eftirfarandi kylfingar:

Ragnhildur Kristinsdóttir
Nína Margrét Valtýsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Andrea Ýr Ásmundsdóttir
Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Valdís Þóra Jónsdóttir
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir
Eva Karen Björnsdóttir
Hulda Clara Gestsdóttir
Heiðrún Anna Hlynsdóttir
Saga Traustadóttir
Berglind Björnsdóttir

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu sem og úrslit allra leikja til þessa.


Kristófer Karl Karlsson hafði betur gegn Haraldi Franklín í annarri umferð.