Fréttir

Íslenska liðið hafði betur gegn liði Austurríkis
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 7. september 2019 kl. 10:51

Íslenska liðið hafði betur gegn liði Austurríkis

Íslenska kvennalandsliðið skipað kylfingum 50 ára og eldri endaði í 13. sæti á Evrópumóti sem fer fram í Búlgaríu.

Íslenska liðið endaði í 14. sæti í höggleiknum og lék því í B-riðli þar sem liðið tapaði fyrst gegn Sviss en vann svo Austurríki í leik um 13. sætið.

Leikurinn var jafn og spennandi en tveir leikir fóru í bráðabana. María Málfríður Guðnadóttir og Anna Snædís Sigmarsdóttir unnu fjórmenninginn á 23. holu en áður höfðu þær Svala Óskarsdóttir og Þórdís Geirsdóttir tapað sínum leikjum.

Staðan var því 2-1 fyrir lokaleikina tvo en þar unnu Ragnheiður Sigurðardóttir 2/1 og Ásgerður Sverrisdóttir á 21. holu og tryggðu þar með sigurinn.

Úrslitaleikur mótsins er nú í gangi en þar mætast Spánverjar og Englendingar. Þegar fréttin er skrifuð er útlit fyrir öruggan sigur Englendinga sem eru 4-1 yfir.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.