Fréttir

Járnahöggin frábær hjá Collin Morikawa
Morikawa er ótrúlegur í járnahöggunum
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
miðvikudaginn 21. júlí 2021 kl. 11:18

Járnahöggin frábær hjá Collin Morikawa

Nýkrýndur meistari Opna mótsins Collin Morikawa er orðinn stórstjarna í golfinu. Í átta fyrstu risamótum sínum hefur honum tekist að sigra tvisvar.

En hvað er það sem gerir Morikawa svo frábæran? Hann virðist hafa frábært hugarfar og mikinn andlegan styrk, lætur fátt koma sér úr jafnvægi. En það er víst ekki til tölfræði yfir það. Við verðum því bara að álykta að svo sé. Þegar tölfræði þættirnir eru skoðaðir er það sérstaklega einn sem sker sig úr, innáhögg með járnkylfunum.

Margeir golfkennsla
Margeir golfkennsla

Það sem af er þessu tímabili er Morikawa að vinna eitt og hálft högg á hverjum hring á meðalmanninn á mótaröðinni í innáhöggum. Næst besti járnaspilarinn er að vinna 0,9 högg á hring á meðalmanninn.  Morikawa er því að vinna 6 högg á meðalmanninn í hverju móti og 2,4 högg á næst besta járnaspilarann sem er Paul Casey.

Tölfræði yfir innáhögg

Þessir yfirburðir í innáhöggunum leiða af sér að Morikawa hittir flestar flatir allra í tilskildum höggafjölda og fær þannig oftast allra möguleika á að pútta fyrir fuglum.

Tölfræði yfir hittar flatir

Þegar öll högg frá teig að flöt eru talin saman er Morikawa enn að vinna flest högg á meðalmanninn eða rúmlega 2 högg á hring. Hann slær þannig best allra á mótaröðinni.

Tölfræði frá teig að flöt

Golfdigest gerði skemmtilega tilraun með Morikawa á síðasta ári. Áskorun sem gekk út á það að athuga hvort hann væri nákvæmari með 6 járni en restin af mótaröðinni með fleygjárni.

Niðurstaðan, Collin er nákvæmari með 6 járninu en restin af mótaröðinni með fleygjárni.

Myndbandið frá Golfdigest

Það verður spennandi að sjá hvort Morikawa takist að halda þessum yfirburðum sínum á næstu árum. Takist það á hann eftir að raða inn risatitlunum.