Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Johnson fagnaði sigri á nýju mótsmeti
Dustin Johnson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 15. nóvember 2020 kl. 19:59

Johnson fagnaði sigri á nýju mótsmeti

Dustin Johnson landaði nú fyrir skömmu sínum öðrum risatitli þegar að hann bar sigur úr býtum á Masters mótinu á nýju mótsmeti. Hann bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína og endaði fimm höggum á undan næsta manni.

Fyrir daginn var Johnson fjórum höggum á undan þeim Cameron Smith og Sungjae Im. Þrátt fyrir að byrja daginn rólega varð forystu Johnson aldrei minna en tvö högg. Eftir 12 holur var forysta Johnson þrjú högg og fékk hann þá þrjá fugla í röð á meðan Smith fékk einn fugl og Im fékk tvo.

Johnson sigldi þessu svo í höfn með þremur pörum á síðustu þremur holunum og lék því lokahringinn á 68 höggum, eða fjórum höggum undir pari. Hann endaði mótið því á nýju mótsmeti, 20 höggum undir pari. Hann er fyrsti kylfingurinn í sögu mótsins til að komast á 20 högg undir par á nokkrum tíma í mótinu.

Þetta er annar risatitill Johnson en hann fagnaði sigri á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2016. Þetta er einnig 24. sigur hans á PGA mótaröðinni.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.