Fréttir

Johnson hóf titilvörnina á 74 höggum
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 8. apríl 2021 kl. 21:49

Johnson hóf titilvörnina á 74 höggum

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson hóf í dag titilvörn sína á Masters mótinu á Augusta National golfvellinum. Johnson spilaði fyrsta hringinn á 74 höggum eða tveimur höggum yfir pari og er jafn í 34. sæti þegar þessi frétt er skrifuð.

Johnson byrjaði daginn á skolla en vann það högg til baka strax á annarri holu þegar hann tvípúttaði fyrir fugli. Johnson bætti svo við sig fuglum á 11. og 13. holu en tapaði höggum á 5. og 16. holu og var á parinu fyrir lokaholu dagsins.

Á 18. holu missti Johnson upphafshögg sitt töluvert til hægri og átti varla möguleika á að hitta flötina í innáhögginu sem endaði vinstra megin við flöt. Efsti kylfingur heimslistans vippaði þaðan inn á flöt og þrípúttaði og niðurstaðan því tvöfaldur skolli.

Johnson er þó langt frá því að hafa kastað mótinu frá sér en hann er eins og áður hefur komið fram í 34. sæti.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.