Fréttir

Johnson mun ekki verja titilinn á Masters
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 9. apríl 2021 kl. 23:03

Johnson mun ekki verja titilinn á Masters

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er úr leik á Masters mótinu árið 2021. Johnson lék annan hring mótsins á 3 höggum yfir pari og var því samtals á 5 höggum yfir pari á fyrstu tveimur hringjunum.

Niðurskurðarlína mótsins miðaðist við þrjú högg yfir pari en slæmur endasprettur hjá Johnson varð honum að falli.

Eftir fullkomið upphafshögg á 15. holu var Johnson samtals á tveimur höggum yfir pari og reyndi við flötina í tveimur höggum. Innáhöggið endaði í vatninu fyrir framan flöt og skolli staðreynd.

Johnson bætti við sig skollum á 17. og 18. holu og því ljóst að hann mun ekki ná að verja titil sinn frá því í nóvember.

Justin Rose er efstur eftir tvo hringi á 7 höggum undir pari. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.