Fréttir

Justin Rose þurfti að draga sig úr leik
Justin Rose.
Sunnudagur 7. mars 2021 kl. 11:40

Justin Rose þurfti að draga sig úr leik

Justin Rose komst ekki lengra en á fjórðu holu á þriðja degi Arnold Palmer Invitational mótsins í gær. Þá þurfti þessum fyrrum efsti maður heimslistans að draga sig úr leik vegna bakmeiðsla.

Fyrir daginn var Rose í fínum málum á fimm höggum undir pari, aðeins fjórum höggum á eftir efsta manni. Hann sagði þó í viðtali eftir daginn í gær að hann hafi vaknað með verki í bakinu og upphitunin hafi verið „erfiðis vinna,“ hann hafi þó engu að síður reynt að spila gegnum sársaukann.

„Ég gat ekki haldið mér niðri í gegnum höggið,“ sagði Rose. „Í byrjun dags sló ég einfaldlega allt til vinstri.“

Rose byrjaði ágætlega og fékk par á fyrstu tveimur holunum en á þeirri þriðju byrjuðu mikil vandræði þar sem vatn liggur meðfram allri holunni á vinsti hönd. Hann endaði á að leika holuna á níu höggum þar sem hann sló þrjá bolta í vatnið.

„Litla vippuð sem ég átti eftir á fjórðu holunni var meira að segja að valda mér óþægindum. Á þeim tímapunkti var eina rétta í stöðunni að hætta leik. En mér leið pínu illa því Jordan Spieth var að spila vel og hann varð að vera einn restina af deginum.“

Rose er skráður til leiks næstu helgi á einu stærsta móti ársins á PGA mótaröðinn, Players meistaramótinu, en að svo stöddu er óljóst hvort hann verði á meðal keppenda.