Fréttir

Karl sigurvegari á Áramóti GKG
Sunnudagur 31. desember 2023 kl. 17:19

Karl sigurvegari á Áramóti GKG

Áramót til styrktar afrekskylfingunum Gunnlaugi Árna Sveinssyni, Aroni Snæ Júlíussyni og Kristófer Orra Þórðarsyni fór fram í Trackman aðstöðu GKG í dag.Leiknar voru 9 holur á Club de Campo golfvellinum í sól og sumaryl. Þátttakan var frábær og kunnu kylfingar vel að meta egg og beikon að hætti Mulligan hvort sem var fyrir eða eftir leik. 

Keppnin var hörkuspennandi en að lokum fór svo að Karl Eiríksson úr Golfklúbbnum Oddi stóð uppi sem sigurvegari með 20 punkta. Lagði hann marga frábæra mótherja, þar á meðal atvinnukylfingana Arnar Má Ólafsson, Úlfar Jónsson og Birgi Leif Hafþórsson. 

Hrein unun var að fylgjast með Karli í mótinu en hann lék frábærlega frá fyrstu holu á frekar erfiðum velli. Karl hefur tekið miklum framförum í golfinu í sumar en hann hóf golfsumarið á golfferð til Spánar þar sem leikur hans var tekinn til gagngerrar endurskoðunar og er óhætt að segja að mikil vinna sé að skila sér með þessum frábæra sigri á lokagolfmóti ársins.

Áramótið var eins og áður segir leikið til styrktar Aroni Snæ, Gunnlaugi Árna og Kristófer Orra, afrekskylfingum í GKG en þeir munu hefja leik á Ecco Tour Spring Series á Spáni í febrúar næstkomandi. Fyrsta mótið verður á PGA Catalunya sem er mörgum Íslendingum góðu kunnur. Mótið var frábært framtak og vel til fundið að leika golfmót í golfhermum á gamlársdag. Afrekskylfingarnir þrír sáu um mótsstjórn og afhentu verðlaun í mótslok. Þökkuðu þeir þátttakendum kærlega fyrir veittan stuðning en færri komust að í mótið en vildu. 

Úrslitin voru þannig:

1. Karl Eiríksson 20 p.

2. Arnar Már Ólafsson 19 p

3. Magnús Björnsson 19 p.

Nándarverðlaun: 

13. holu Vignir Hlöðversson 1,3 m

16. holu Birgir Leifur Hafþórsson 1,7 m

Sjá úrslit hér.