Fréttir

Kemur fyrsti sigur Westwood í 11 ár á morgun á PGA mótaröðinni?
Lee Westwood.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 6. mars 2021 kl. 23:26

Kemur fyrsti sigur Westwood í 11 ár á morgun á PGA mótaröðinni?

Lee Westwood getur á morgun unnið sitt fyrsta mót á PGA mótaröðinni í um 11 ár og í leiðinni unnið sitt þriðja mót á ferlinum en hann er með eins höggs forystu fyrir lokadaginn á Arnold Palmer Invitational mótinu. Mikil spenna er fyrir lokahringinn en lítill munur er á efstu mönnum.

Dagurinn var fjölbreyttur þar sem meðal annars fóru tveir kylfingar holu í höggi og Bryson DeChambeau var nálægt því að slá inn á flöt í upphafshöggi á par 5 holu. 

Það var samt Westwood sem átti einn af betri hringjum dagsins en hann kom í hús á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari. Hringurinn var sveiflukenndur hjá Westwood, á fyrri níu holunum fékk hann fimm fugla, einn skolla og restina pör. Hann bætti svo við þremur fuglum á síðari níu holunum, einum erni og á móti fékk hann tvo skolla. Westwood er samtals á 11 höggum undir pari fyrir lokadaginn.

DeChambeau er jafn í öðru sæti á 10 höggum undir pari en Corey Connors er jafn honum. Connors var í forystu eftir fyrstu tvo hringina. Það eru svo þeir Jordan Spieth og Keegan Bradley sem eru jafnir í fjórða sætinu á níu höggum undir pari en Bradley átti besta hring dagsins er hann kom í hús á 64 höggum.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.