Fréttir

Kim leiðir eftir tvo hringi á KPMG PGA meistaramótinu
Sei Young Kim.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 10. október 2020 kl. 09:52

Kim leiðir eftir tvo hringi á KPMG PGA meistaramótinu

Suður-kóreski kylfingurinn Sei Young Kim er með eins höggs forystu þegar þriðja risamót ársins í kvennagolfinu er hálfnað, KPMG PGA meistaramótið. Kim er á fjórum höggum undir pari eftir tvo hringi en hún lék á 65 höggum á öðrum keppnisdeginum.

Skor Kim er það lægsta í mótinu til þessa og kom það henni í efsta sætið, höggi á undan Jennifer Kupcho, Anna Nordqvist, Danielle Kang og Carlota Ciganda sem deila öðru sætinu.

Kim, sem hefur sigrað á 10 mótum á LPGA mótaröðinni, er enn í leit að sínum fyrsta risatitli. Henni hefur þó áður gengið vel á risamóti því hún hefur bæði endað í 2. sæti á PGA meistaramótinu og Evian meistaramótinu og endaði í topp-10 í öllum hinum risamótunum þremur.

Sigurvegari síðasta árs, Hannah Green, sýndi sitt rétta andlit á öðrum keppnisdeginum og kom inn á 66 höggum eða fjórum höggum undir pari. Með hringnum tryggði hún sér sæti í mótinu um helgina en hún hafði leikið fyrsta hringinn á 79 höggum og var þá á meðal neðstu kylfinga.

Næst efsti kylfingur heimslistans, Nelly Korda, er úr leik vegna meiðsla. Hún hafði leikið fyrsta hringinn á höggi yfir pari og var á meðal efstu kylfinga.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga:

1. Sei Young Kim, -4
2. Jennifer Kupcho, -3
2. Anna Nordqvist, -3
2. Danielle Kang, -3
2. Carlota Ciganda, -3