Fréttir

Kinhult leikur í sínu fyrsta heimsmóti um helgina
Marcus Kinhult.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 19. febrúar 2020 kl. 20:29

Kinhult leikur í sínu fyrsta heimsmóti um helgina

Svíinn Marcus Kinhult er á meðal keppenda á heimsmótinu í Mexíkó sem fer fram dagana 20.-23. febrúar. Margir af bestu kylfingum heims taka þátt í mótinu líkt og venjulega á Heimsmótaröðinni en þar spila einungis efstu kylfingar heimslistans.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Kinhult keppir á Heimsmótaröðinni en hann hefur gert góða hluti á Evrópumótaröðinni undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur.

„Ég held að það verði mjög gaman þessa vikuna, ég er augljóslega búinn að hlakka til að spila í mótinu síðan ég komst inn,“ sagði Kinhult á blaðamannafundi fyrr í vikunni.

„Þetta er fyrsta heimsmótið mitt þannig að spila gegn þessum strákum er gaman, að sjá hvar leikurinn minn er og hvort maður geti keppt við þá.

Ég kom hingað aðeins fyrr en vanalega, seint á laugardaginn þannig að ég hafði nægan tíma á sunnudaginn til að labba um og kanna aðstæður. Ég spilaði völlinn og gerði mínar æfingar eins og ég geri í hverju móti þannig að þetta er ekkert öðruvísi.

Ég er glaður að vera hér 23, það er ánægjulegt, en markmiðin mín eru stærri til lengri tíma og ég er að reyna að komast á næsta stig og bæta mig alla daga. Ég er engu að síður ánægður með ferlið og spenntur fyrir komandi átökum.“


Kinhult sigraði á Betfred British Masters mótinu í fyrra á Evrópumótaröð karla.