Fréttir

Koepka: Gott að vera kominn aftur
Brooks Koepka. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 17. janúar 2020 kl. 07:30

Koepka: Gott að vera kominn aftur

Líkt og Kylfingur greindi frá í gær fór efsti kylfingur heimslistans, Brooks Koepka, vel af stað í sínu fyrsta móti í tæplega þrjá mánuði eða frá því að hann meiddist á CJ Cup mótinu í október á síðasta ári.

Koepka lék fyrsta hringinn á 66 höggum eða 6 höggum undir pari og er tveimur höggum á eftir efstu mönnum.

„Það er gott að vera kominn aftur,“ sagði Koepka við blaðamenn eftir hring. „Ég saknaði keppninnar að sjálfsögðu. Ég spilaði mjög stöðugt golf í dag, missti nokkur stutt pútt snemma ef ég þarf að setja eitthvað út á spilamennskuna. 

Ég drævaði vel og stjórnaði boltafluginu vel og þá var lengdarstjórnunin mjög góð sem er það sem þú þarft að gera hérna.“

Koepka snéri sig illa á blautri steypu þegar hann keppti á CJ Cup í október og var því skiljanlega spurður um hnéð eftir hring dagsins.

„Hnéð er gott. Ég var aðeins aumur í dag og fékk smá meðhöndlun. Ég bjóst við því. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég labba 18 holur og það nú þegar þrisvar í vikunni.“

Annar hringur mótsins fer fram í dag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.