Fréttir

Lærði réttu handtökin í byrjun og stefnir á atvinnumennsku
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 21. september 2023 kl. 13:16

Lærði réttu handtökin í byrjun og stefnir á atvinnumennsku

Perla Sól Sigurbrandsdóttir getur valið úr háskólum

Perla Sól er næsti yngsti Íslandsmeistari sögunnar í golfi kvenna en hún var að verða sextán ára þegar hún landaði þeim stóra í Vestmannaeyjum í fyrra. Aðeins Ragnhildur Sigurðardóttir var yngri, ný orðin fimmtán ára þegar hún vann titilinn fyrst árið 1985. Perla lenti í 2.4. sæti á Íslandsmótinu í ár eftir að hafa leitt mótið þegar nokkrar holur voru eftir. Perla er í Verzló, þarf ennþá að fá far í skólann þar sem hún er ekki orðin sautján og því hefur hún nægan tíma til að ákveða í hvaða háskóla í Bandaríkjunum hún fer. Spurningin er já ekki hvort hún fari í háskólagolfið, heldur hvaða skóli nái að sannfæra hana um að koma. Flestir kylfingar sem vilja komast í háskólagolfið þurfa að ganga á eftir því að komast í viðkomandi skóla, Perla Sól er ekki þar, bestu skólarnir munu slást um að fá hana.

Perla sem stundaði líka hópfimleika en hætti þeim í fyrra til einbeita sér alfarið að golfinu, er í GR, hefur alltaf búið í Grafarvoginum og smitaðist snemma af golfáhuga eldri bróður síns, Dagbjarts en sá stendur líka framarlega í íslensku golfi og endaði í 14.-15. sæti á Íslandsmótinu í ár. Perla var ekki gömul þegar hún elti bróður sinn út á golfvöll. „Það tekur mig bara nokkrar mínútur að labba á fyrsta teig í Korpunni. Ég fór eitthvað með Dagbjarti bróður þegar ég var yngri en ég eignaðist fyrsta golfsettið þegar ég var átta, níu ára gömul. Ég fór strax á námskeið hjá GR, mætti svo á æfingar hjá Snorra Páli Ólafssyni og byrjaði þá bara strax á fullu. Ég var mjög fljót að sjá framfarir, hrundi strax niður í forgjöf og vann fyrsta mótið þegar ég var ellefu ára, þá var ég komin niður í sex í forgjöf. Ég þakka það bara miklum æfingum, ég æfði mig mikið með Dagbjarti og vinum hans en líka það að ég lærði strax réttu handtökin, mjög margir fara bara út á golfvöll og gera hlutina eins og þeir halda að eigi að gera þá en eru kannski að gera vitleysu. Það er miklu betra að læra strax undristöðuatrðin eins og grip og rétta sveiflu, ég mæli algerlega með því.“

Gaman að spila með Ólafíu

Perla er með +4,3 í forgjöf í dag en svo ekki gæti misskilnings þá er hinn almenni kylfingur er með mínus forgjöf. Hún hefur borið höfuð og herðar yfir jafnaldra sína í golfi, keppti ekki á unglingamótaröðum í golfi í ár og veit hvert hún stefnir. „Þegar ég var að keppa í unglingamótunum voru mótin fyrir fjórtan ára og yngri og svo frá fimmtán til sextán. Árið 2017 komst ég fyrst á pall og árinu eftir það vann ég mitt fyrsta unglingamót og Íslandsmeistaratitil. Frá 2019 vann ég í raun öll unglingamót sem ég tók þátt í, oftast með nokkrum yfirburðum. Ég spilaði þar til í fyrra á unglingamótunum en ákvað að sleppa því á þessu sumri en ég varð Íslandsmeistari fullorðinna í fyrra. Það var mjög gaman, ekki síst kannski því ég náði að spila með Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, ég var lengi búin að líta mikið upp til hennar enda frábær íþróttakona og var valinn íþróttamaður Íslands árið 2017. Ég varð líka Evrópumeistari U-16 í fyrra, það er stærsta mót sem ég hef unnið. Auðvitað ætlaði ég mér að verja Íslandsmeistaratitilinn í ár en ég endaði í öðru til fjórða sæti á eftir Ragnhildi Kristins. Ég var að missa of mikið af stuttum púttum sem ég er vön að setja ofan í, um leið og eitt til tvö fóru að krækja fór sjálfstraustið og ég bara náði ekki að skora á lokadeginum en svona er þetta stundum,“ segir Perla.

Lúxusvandamál með háskólaval

Perla er byrjuð að skoða háskóla í Bandaríkjunum og fer út eftir áramót að skoða skóla. Í framhaldinu mun hún svo taka ákvörðun í hvaða skóla hún fer og byrja haustið 2025. „Það verður ekki auðvelt að velja skóla því ég get í raun valið úr bestu skólunum, þetta myndi stundum flokkast undir lúxusvandamál. Ég mun heimsækja þrjá til fimm skóla, þeir eru í Florida, Kaliforníu eða Norður Karólínu,mögulega líka Arizona og Tennessee en þarna er auðvitað mjög gott veður. Það skiptir mig máli en ég þarf líka að taka með í reikninginn hvernig þjálfarinn er, stelpurnar, æfingasvæðið en svo má líka ekki gleyma náminu sjálfu, ég er á viðskipta- og hagfræðibraut í Versló svo mér finnst líklegt að ég velji mér nám tengdu því. Ég lít ekki bara á þetta sem tækifæri á að stunda golf, ég vil líka ná mér í góða menntun, þetta er ígildi atvinnumennsku. Það verður ekki auðvelt að velja skólann en eins og ég segi, maður á eftir að þurfa að glíma við erfiðari vandamál en það á lífsleiðinni.“

Á faraldsfæti

Perla verður talsvert á faraldsfæti í vetur vegna golfsins en afreksfólki í íþróttum er sýndur góður skilningur í framhaldsskólum þegar kemur að mætingu og verkefnaskilum. „Þegar ég er í landsliðsverkefnum fæ ég frí, fæ að taka próf og skila verkefnum seinna. Ég næ síðan að nýta vetrarfríið og jólafríið en við fjölskyldan erum oft í Florída og spilum þá golf. Ég mun fara í nokkur mót erlendis í vetur en á meðan ég er á Íslandi æfi ég líka mikið, bæði í Básum þar sem er kominn mjög góður hitari og svo eru góðir hermar líka, bæði í Korpu og ég fer líka stundum í GKG. Markmið mitt í framtíðinni er einfalt, ég vil ná sem lengst í golfinu og spila sem atvinnumaður. Það er auðvitað of snemmt að byrja plana það núna, hvort ég klári háskólanámið eða hvað, ef ég tel mig vera tilbúna til að fara í atvinnugolfið eftir tvö ár í námi, myndi ég íhuga það vel. Það er samt langt í þetta, ég ætla bara að taka eitt skref í einu og halda áfram að bæta mig, maður veit ekkert hvar maður verður eftir eitt til tvö ár, það getur ýmislegt komið upp á og breyst,“ sagði Perla Sól að lokum.

Perla Sól var í liði Evrópu sem vann lið Breta og Íra í fyrra

Perla að æfa með Dagbjarti bróður sínum

Perla Íslandsmeistari 2022.