Fréttir

LET stjörnur minnast Celiu Barquin
Miðvikudagur 19. september 2018 kl. 10:00

LET stjörnur minnast Celiu Barquin

Fréttirnar um morðið á spænska kylfingnum Celiu Barquin Arozamena á mánudaginn hafa vakið mikinn óhug meðal fólks um allan heim. Þá hefur atvikið haft sérstaklega mikil áhrif á þá leikmenn og þjálfara sem eru á móti vikunnar á LET mótaröðinni en þar þekktu margir til Arozamena.

Mótið fer fram í heimalandi hennar, nánar tiltekið í Sitges, og ber heitið Estrella Damm Ladies Open.

Azahara Munoz, sem sigraði á móti á LET mótaröðinni í fyrra, talaði meðal annars um Arozamena á blaðamannafundi fyrir mótið. „Þetta er nánast súrrealískt og svo erfitt. Ég meina, hvernig gerðist þetta? Allt getur breyst á einum degi og samt kvartar maður yfir svo asnalegum hlutum.“

Florentyna Parker, sem hefur titil að verja í mótinu, tjáði sig einnig um málið. „Þetta er hræðilegt. Ég held að við höfum öll verið ein á golfvelli á einhverjum tímapunkti og að hugsa sér að einhver fari vísvitandi út á völl til að drepa kvenkylfing er hræðilegt. Það er átakanlegt að hugsa til þess og auðvitað mjög sorglegt. Vonandi gerist þetta ekki aftur.“

Skipuleggjendur og leikmenn mótsins munu heiðra Barquin með mínútu þögn í Pro/Am mótinu sem og á fyrsta keppnisdegi. Þar að auki munu kylfingar bera svarta nælu í virðingarskyni.

Estrella Damm Ladies Open mótið hefst á fimmtudaginn. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er á meðal keppenda.


Florentyna Parker.

Ísak Jasonarson
[email protected]