Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Lokaúrtökumótið hefst á föstudaginn
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 11. nóvember 2019 kl. 18:27

Lokaúrtökumótið hefst á föstudaginn

Líkt og áður hefur komið fram á Kylfingi eru þeir Andri Þór Björnsson, Bjarki Pétursson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson allir búnir að tryggja sér keppnisrétt á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla sem fer fram dagana 15.-20. nóvember.

Auk þeirra sem hafa tryggt sig inn í lokaúrtökumótið í gegnum 2. stig úrtökumótanna bætast nú til að mynda við kylfingar sem enduðu neðarlega á Evrópumótaröðinni í ár og er því keppendahópurinn alla jafna mjög sterkur.

Mótið er haldið á Lumine golfsvæðinu á Spáni og til þess að fá fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni þurfa strákarnir okkar að enda í einu af 25 efstu sætunum að sex hringjum loknum.

Eftir fjóra hringi verður skorið niður í mótinu og halda þá um 70 kylfingar áfram og leika um 25 sæti sem veita fullan keppnisrétt.

Þeir sem enda neðar en í 25. sæti en komast í gegnum niðurskurðinn fá líka keppnisrétt á nokkrum mótum og þá eru einnig mót í boði á næst sterkustu mótaröð Evrópu, Áskorendamótaröðinni, fyrir það eitt að hafa komist á lokaúrtökumótið. 

Hér fyrir neðan má sjá í hvaða flokka kylfingum var raðað miðað við árangur í lokaúrtökumótinu árið 2018.

Flokkar á Evrópumótaröðinni:

Flokkur 17 (Þátttökuréttur í flestum mótum ársins): 25 efstu í lokaúrtökumótinu
Flokkur 22 (Þátttökuréttur í takmörkuðum fjölda móta): Þeir sem komust í gegnum niðurskurðinn en enduðu neðar en í 25. sæti

Flokkar á Áskorendamótaröðinni:

Flokkur 5 (Þátttökuréttur í öllum mótum ársins): 25 efstu í lokaúrtökumótinu
Flokkur 9 (Þátttökuréttur í flestum ef ekki öllum mótum ársins): Þeir sem komust í gegnum niðurskurðinn en enduðu neðar en í 25. sæti
Flokkur 16 (Þátttökuréttur í takmörkuðum fjölda móta): Þeir sem komast ekki í gegnum niðurskurðinn á lokaúrtökumótinu

Eins og sjá má á flokkaskiptingunni er ljóst að þeir Bjarki og Andri Þór eru nú komnir með takmarkaðan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni áður en þeir byrja í lokaúrtökumótinu. Það er strax bæting á stöðu þeirra fyrir úrtökumótin þar sem þeir voru báðir með keppnisrétt í „þriðju deildinni“ á Nordic Golf mótaröðinni. Guðmundur var hins vegar nú þegar kominn með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni.

Aldrei í sögunni hafa jafn margir íslenskir kylfingar komist alla leið í lokaúrtökumótið og því verður spennandi að fylgjast með strákunum byrja á föstudaginn.


Bjarki Pétursson.


Andri Þór Björnsson.