Fréttir

LPGA: Ekki fengust úrslit í fyrsta móti ársins vegna myrkurs | Mótið klárað á morgun
Nasa Hataoka.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 19. janúar 2020 kl. 23:25

LPGA: Ekki fengust úrslit í fyrsta móti ársins vegna myrkurs | Mótið klárað á morgun

Lokadagur Diamond Resorts Tournament of Champions mótsins kláraðist nú fyrir skömmu. Það var mikil spenna en þrjár konur voru jafnar eftir 72 holur og þurfti því að grípa til bráðabana. Eftir að hafa leikið 18. holuna fimm sinnum var leik frestað vegna myrkurs og munu þær klára bráðabanan á morgun.

Fyrir daginn var Inbee Park í forystu á 13 höggum undir pari. Hún náði sér ekki alveg á strik í dag en kom þó engu að síður í hús á pari vallar og dugði það til að komast í bráðabanann.

Nasa Hataoka var þremur höggum á eftir fyrir daginn í dag á meðan Gaby Lopez var fimm höggum á eftir. Lopez lék vel og kom í hús á 66 höggum, eða fimm höggum undir pari. Hún fékk fimm fugla og restina pör á hringnum. Hataoka lék á 68 höggum í dag, eða þremur höggum undir pari, en hún fékk fjóra fugla, einn skolla og restina pör í dag. Þær enduðu því báðar á 13 höggum undir pari líkt og Park og þurfti því að grípa til bráðabana.

Í bráðabananum var féll Park út þegar 18. holan var leikin í annað skiptið en þá höfðu Hataoka og Lopez fengið par í fyrstu tvö skiptin. Þær héldu því á 18. teigin að nýju og léku holuna þrisvar til viðbótar og fengu þær í öll skiptin par. Þá var komið myrkur og þurfa þær því að mæta á morgun til að ljúka við bráðabanann. 

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Gaby Lopez.