Fréttir

LPGA: Feng sigraði með fugli á lokaholunni
Shanshan Feng
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 8. júlí 2019 kl. 08:17

LPGA: Feng sigraði með fugli á lokaholunni

Lokahringurinn á Thornberry Creek LPGA Classic mótinu var leikinn í gær en fjórir kylfingar voru jafnir á toppnum á samtals 20 höggum undir pari fyrir lokahringinn. Það var svo að lokum hin kínverska Shanshan Feng sem tryggði sér sigurinn með fugli á lokaholunni. Feng lauk leik á samtals 29 höggum undir pari, einu höggi á undan Ariya Jutanugarn.

Feng átti afbragðs góðan lokahring sem hún lék á 9 höggum undir pari. Á hringnum fékk hún 9 fugla og restin pör og tapaði því ekki höggi. Hún gerði að vísu fá mistök allt mótið og fékk aðeins þrjá skolla á hringjunum fjórum.

Ariya Jutanugarn var í baráttunni allt fram á lokaholuna en hún lék hringinn á 8 höggum undir pari. Á hringnum fékk hún tvo erni, fimm fugla, einn skolla og restin pör. Tvær enduðu jafnar í þriðja sæti, þær Amy Yang og Tiffany Joh en þær luku leik á samtals 25 höggum udir pari.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var á meðal keppenda en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.

Icelandair Betra verð til Kanada 640
Icelandair Betra verð til Kanada 640