Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Mætti í Bergvíkina í fyrsta sinn í sumar og fór holu í höggi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 11. júlí 2025 kl. 12:07

Mætti í Bergvíkina í fyrsta sinn í sumar og fór holu í höggi

„Það verður erfitt að ná mér af golfvellinum núna. Ég held ég kaupi líka lottómiða í dag. Þvílík byrjendaheppni,“ sagði Hinrik Albertsson sem fór holu í höggi á draumaholu margra, Bergvíkinni á Hólmsvelli í Leiru í morgun.

Hinrik sló með 7-járni af teig í all nokkrum meðvindi. „Ég var að pæla í áttunni en ákvað að taka sjöuna og hitti boltann vel sem flaug yfir sjóinn og lenti framarlega á flötinni. Við sáum hann lenda og rúlla að holunni sem var aftarlega hægra megin á flötinni. Svo bara hvarf hann - og endaði í holunni,“ sagði Hinni en hann mætti á Hólmsvöll klukkan fyrir klukkan sjö í morgun með félögum sínum, Högna Helgasyni og Þóri Hannessyni en þeir eru allir félagar í Golfklúbbi Suðurnesja. Þeir voru í sambandi í gærkvöldi og Högni og Þórir sögðust vera á báðum áttum út af veðurspá. Hinni sem er flugumferðarstjóri er vanur að skoða veðurspár sagði ekki koma til greina að afbóka teigtímann, þetta yrði í fínu lagi, sem kom á daginn, og rúmlega það.

Hinrik er á sínu fyrsta ári meðlimur í GS og sannkallaður byrjandi í íþróttinni. Hann segist þó hafa leikið nokkrum sinnum golf undanfarin ár en bara 9 holur með nokkrum félögum og í boðsmótum. Í sumar hefur hann verið duglegri og farið 9 holur á morgnana með félögunum og þeir hafa verið mættir eldsnemma til að komast aftur heim snemma og í vinnu. Þeir hafa alltaf farið fyrri níu holurnar og þar sem Bergvíkin er nú 12. braut var Hinrik að leika þessa frægu braut í fyrsta sinn í sumar. Þegar þeir mættu til leiks í morgun voru þeir beðnir um að fara seinni níu holurnar þar sem það var verið að vinna við flatir á fyrri níu holunum.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Þetta er svona fyrsta sumarið mitt af viti í golfi. Við höfum farið í Leiruna á morgnana og tekið níu holur en svo lék ég 18 holu hring í Mosfellsbæ um daginn og gekk vel og það kveikti í mér að fara oftar út á golfvöll. Ég gekk í Golfklúbb Suðurnesja í sumar og hef aldrei verið í klúbbi. Fara svo holu í höggi er svakalegt - ég er bara ekki búinn að jafna mig á þessu,“ sagði kylfingurinn í spjallli rétt fyrir hádegi.

„Þetta er auðvitað svoldið galið að maður hafi náð draumahögginu, alger byrjendaheppni. Ég er skráður með 54 í forgjöf, hef aldrei skilað inn skori þó ég hafi átt golfsett í nokkur ár en viðurkenni þó að ég er líklega eitthvað betri en það. Nú verður þetta bara tekið með trompi og hjólum í að lækka forgjöfina. En skorið í morgun á þessum níu holum var ekkert svakalegt en þó 50 högg (6-7-1-6-7-5-4-6-8) sem er kannski ekki svo slæmt hjá byrjanda.

Það hefur verið geggjað að mæta á morgnana í Leiruna í sumar. Veðrið hefur verið gott og þetta er náttúrulega magnaður staður til að byrja daginn á,“ sagði Hinni sem var að fara á vaktina í flugturninum á Keflavíkurflugvelli eftir hádegi.

Hinrik mundar símann á Bergvíkinni. Boltinn er í holu!