Fréttir

Magnaður Fitzpatrick vann Opna bandaríska
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 19. júní 2022 kl. 23:21

Magnaður Fitzpatrick vann Opna bandaríska

Englendingurinn Matt Fitzpatrick sigraði á Opna bandaríska risamótinu eftir gríðarlega spennandi keppni á Country club vellinum í Brookline í Bandaríkjunum. Matt endaði á 6 höggum undir pari, höggi betri en Will Zalatoris og Scottie Sceffler. Matt komst fyrst í forystu á 13. braut á lokahringnum en innáhöggið hans á 18. holu úr glompu úr 130 metra fjarlægð flaug inn á flöt og tryggði honum parið og sigur, hans fyrsta á PGA mótaröðinni.

Fitzpatrick og Bandaríkjamennir Zalatoris og efsti maður heimslistans, Scottie Scheffler, börðust hart um titilinn. Zalatoris var nálægt því að setja pútt ofan í á lokaflötinni um 5 metra frá. 

„Þetta er stór draumur að rætast. Mér leist ekki á blikuna þegar upphafshöggið með 3-tré endaði í brautarglompunni á síðustu brautinni en Mark Foster, kylfusveinninn minn, róaði mig og ég sló síðan líklega besta högg ævinnar inn á flöt í fuglafæri,“ sagði Matt en hann er eini karlkylfingurinn sem hefur sigrað á Opna bandaríska áhugamannamótinu og atvinnumannamótinu á sama velli. Hinn sem hefur náð þeim árangri er enginn annar en Jack Nicklaus, Gullbjörninn.

Vinningsfé Fitzpatrick var nærri 400 millj. króna. Þegar hann vann áhugamannamótið 2013 gisti hann hjá bandarískri fjölskyldu. Hann gerði það aftur núna og gisti hjá sömu fjölskyldu, sagðist hafa viljað upplifa sigurinn aftur frá 2013. Hann ætti því að geta boðið í góða veislu núna. 

Englendingar hafa ekki verið sigursælir á Opna bandaríska mótinu en  Justin Rose vann árið 2013. Evrópskir kylfingar hafa hins vegar náð góðum árangri á US Open síðastliðin áratug. Á árunum 2010 til 2014 unnu Evrópumenn fjórum sinnum, Greame McDowell 2010, Rory McIlroy 2011, Justin Rose 2013 og Martin Kaymer 2014. Jon Rahm vann svo 2021 og nú Fitzpatrick. 



Margir hafa óskað Matt og Foster til hamingju með titilinn og sent þeim kveðju á samfélagsmiðlum. Einn af þeim var Rory McIlroy.