Fréttir

Markmið næsta árs að tryggja fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 29. desember 2023 kl. 15:17

Markmið næsta árs að tryggja fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni

Haraldur Franklín bætti sig mest í „upp og niður“. Er með fullan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni og fær einnig nokkur mót á DP mótaröðinini.

„Markmið mitt er einfalt, að tryggja mér fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni,“ segir Haraldur Franklín Magnús, karlkylfingur ársins hjá GSÍ. Haraldur sem keppti mikið á árinu og mjög mikið undir lok þess, mun brátt hefja æfingar á ný og verður mikið á faraldsfæti á næsta ári. Hann fór yfir árið sem er að líða og sagði frá markmiðum sínum á komandi ári.

Haraldur var ekki lengi að svara hvað hefði verið eftirminnilegast á árinu. „Ég náði mér í kort (þátttökurétt) á Evróputúrnum á komandi ári og þótt það sé lélegasta kortið sem völ er á, gefur það samt rétt á nokkur mót á Evróputúrnum. Því er kannski eftirminnilegast að ég er að mjakast í rétta átt. Ég náði að bæta mig mest í „upp og niður“ en það er í raun lykillinn fyrir mig því ef ég er góður að redda mér, veit ég að ég mun skila góðu skori því góðu höggin koma alltaf líka og þá hirði ég mína fugla, jafnvel erni. Ég spyr mig á hverjum degi, hvar ég þurfi helst að bæta mig og í mínu tilfelli snýst þetta ekkert um einhverja allsherjar umbyltingu, meira bara að bæta mig hægt og bítandi í öllum þáttum leiksins. Þetta er þolinmæðisvinna, ef ég held áfram að bæta mig hef ég fulla trú á eigin getu, ég er á minni vegferð og er gera þetta á mínum forsendum og ef maður er duglegur, leiðir það venjulega til einhvers góðs.“

Oft er horft um öxl um áramót en líka fram á veginn, var eitthvað eitt högg sem stóð upp úr golfárinu og hvernig sér kylfingur ársins hjá Golfsambandi Íslands, árið 2024 fyrir sér?

„Það voru ansi mörg golfhögg slegin á árinu svo ég get ómögulega tekið eitthvað eitt úr úr en ef ég verð að svara þessari spurningu segi ég að fyrsta holan í fyrsta móti ársins hafi verið eftirminnileg, ég byrjaði á flottum fugli. Annað eftirminnilegt frá árinu er að ég taldi mig vera í góðum málum í byrjun árs varðandi mót sem ég átti að geta keppt á en svo var keppnisfyrirkomulaginu breytt og ekki eins mörg sæti í boði. Ég var á Spáni, var tilbúinn að hoppa upp í vél og keppa á móti í Suður Afríku en það datt upp fyrir og svo var ég kominn til Englands og átti að fara keppa í Indlandi en þurfti aftur að sitja eftir með sárt ennið, var næstur í röðinni að komast inn! Það voru nokkur svona dæmi sem var svekkjandi, ég var tilbúinn að fara keppa en á næsta ári mun ég ekki lenda í þessu, ég er kominn í betri flokk og mun því pottþétt fá mót. Ég verð mest á Challenge túrnum (Áskorendamótaröðin) en fæ svo nokkur mót á sjálfri Evrópumótaröðinni, DP World Tour, svo ég lít næsta ár björtum augum.

Ég keppti mjög mikið undir lok síðasta árs, hélt ég væri kominn í frí en þurfti þá að fara til Ástralíu í mót. Ég var kominn heim í byrjun desember og hef ekki snert kylfurnar síðan. Ég vil byggja upp löngun áður en ég byrja aftur og finn að hún er komin aftur. Ég mun æfa í Golfklúbbnum í Fossaleyni hjá Viggó og í hinni frábæru aðstöðu GR í Korpu og Básum. Ég fer í lok janúar til Suður Afríku, fer svo í febrúar og spila í þremur mótum, í Suður Afríku, Kenía og í Barein. Ég fer líklega til Indlands í mars, keppnisdagskráin er ekki alveg komin á hreint en ég mun spila á mörgum mótum á næsta ári og markmið mitt er einfalt, að tryggja mér fullan rétt á Evrópumótaöðinni. Svo er ég með önnur minni markmið, t.d. að leika skollalausan hring í móti,“ sagði Haraldur Franklín að lokum.