Fréttir

McIlroy fagnaði sögulegum sigri eftir bráðabana
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 3. nóvember 2019 kl. 08:46

McIlroy fagnaði sögulegum sigri eftir bráðabana

Það var mikil spenna á lokadegi HSBC Champions heimsmótinu sem lauk í nótt. Grípa þurfti til bráðabana milli þeirra Rory McIlroy og Xander Schauffele en svo fór að lokum að McIlroy hafði betur á fyrstu holu bráðabanans.

Fyrir daginn var McIlroy einn í forystu á 15 höggum undir pari, höggi á undan Louis Oosthuizen og tveimur á undan Schauffele. McIlroy var með forystuna allan hringinn en Schauffele og Oostuhuizen voru aldrei langt undan. Þegar á lokaholuna var komið var McIlroy með eins höggs forystu á Schauffele og tveggja högga forystu á Oosthuizen. Á meðan McIlroy og Oosthuizen fengu par nældi Schauffele sér í fugl og jafnaði þar með við McIlroy á 19 höggum undir pari. McIlroy lék lokahringinn á 68 höggum, eða fjórum höggum undir pari en Schauffele lék á 66 höggum, eða sex höggum undir pari.

Í bráðabananum var 18. holan leikin sem er par 5 hola. McIlroy kom sér í góða stöðu með tveimur frábærum höggum og átti pútt fyrir erni. Hann fékk öruggan fugl á meðan Schauffele fékk par og fagnaði McIlroy því sigri. 

Sigurinn var sögulegur fyrir McIlroy að því leiti að hann varð fyrstu evrópski kylfingurinn til þess að vinna þrjú heimsmót á sínum ferli. Aðeins tveir kylfingar hafa nú unnið fleiri heimsmót en Dustin Johnson hefur unnið sex á sínum ferli og Tiger Woods hefur unnið 18.

Hérna má sjá lokastöðuna.