Fréttir

Metin á mótaröðunum
Byron Nelson var stórkostlegur kylfingur á sínum tíma.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 26. október 2021 kl. 08:51

Metin á mótaröðunum

Jin Young Ko var í síðustu viku hársbreidd frá því að slá met Anniku Sörenstam yfir flesta hringi í röð á færri en 70 höggum. Annika lék á sínum tíma 14 hringi í röð undir 70 og Ko sem jafnaði metið á dögunum fékk tækifæri til að bæta það á fyrsta hring BMW Ladies Championship. Það tókst ekki því Ko lék fyrsta hring mótsins á 71 höggi og þarf að sætta sig við að deila metinu með Anniku.

Í tilefni af þessu tók Golf Digest saman lista yfir nokkur áhugaverð met á mótaröðunum í gegnum árin.

Margeir golfkennsla
Margeir golfkennsla
  • Sigrað flest ár í röð.

Kathy Withworth sigraði 17 tímabil í röð á LPGA mótaröðinni. Jack Nicklaus og Arnold Palmer gerðu það sama á PGA mótaröðinni.

  • Árangur Jack Nicklaus á Opna mótinu.

Yfir 15 ára tímabil endaði Gullni Björninn aldrei neðar en í 6. sæti á Opna mótinu. Á þessu tímabili sigraði hann þrisvar sinnum og endaði sex sinnum í öðru sæti.

  • Flestar holur í röð án skolla.

Jin Young Ko lék árið 2019, 114 holur í röð án þess að fá einn einasta skolla. Tiger Woods á metið á PGA mótaröðinni, 110 holur í röð án skolla.

  • Flestir sigrar í röð.

Byron Nelson sigraði á hvorki meira né minna en 11 mótum í röð á PGA mótaröðinni frá mars til ágúst árið 1945.

  • Flest mót í röð á meðal 10 efstu.

Byron Nelson endaði 65 sinnum í röð á meðal 10 efstu á PGA mótaröðinni á fjögurra ára tímabili.

  • Flestir hringir í röð undir pari.

Annika Sörenstam og Lydia Ko léku 29 hringi í röð undir pari á LPGA mótaröðinni. Á PGA mótaröðinni á Tim Petrovic metið, 26 hringir í röð undir pari.

  • Flestir sigrar á sama mótinu í röð.

Annika Sörenstam sigraði fimm sinnum í röð á Mizuno Classic frá 2001 til 2005. Hjá körlunum hafa Walter Hagen, Gene Sarazen og Tiger Woods sigrað fjórum sinnum í röð á sama mótinu.

  • Brautarhittni.

10 ár í röð hitti Clavin Peete flestar brautir á PGA mótaröðinni. Þegar best lét árið 1984 hitti hann 84,55% brautanna. Hjá konunum á Mo Martin metið, 88% brautarhittni á einu tímabili.

  • Samfelld seta í efsta sæti heimslistans.

Tiger Woods sat 281 vikur samfellt í efsta sæti heimslistans. Hann sat einnig 264 vikur í röð í efsta sætinu á öðru tímabili. Greg Norman er sá sem kemst næst Tiger með 96 vikur í röð í efsta sætinu.

  • Flestir fuglar í röð á hring.

Mark Calcawecchia og Kevin Chappel eiga metið, 9 fuglar í röð.