Fréttir

Mickelson afrekaði eitthvað á sunnudaginn sem aðeins tveimur kylfingum hefur tekist áður
Phil Mickelson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 11. febrúar 2020 kl. 14:00

Mickelson afrekaði eitthvað á sunnudaginn sem aðeins tveimur kylfingum hefur tekist áður

Phil Mickelson náði sér ekki almennilega á strik á lokadegi AT&T Pebble Beach Pro-Am mótsins sem lauk á sunnudaginn. Fyrir daginn var hann höggi á eftir Nick Taylor sem var í forystu. Eftir að leika fyrstu sex holurnar á þremur höggum undir pari gaf Mickelson mikið eftir og lék síðustu 11 holurnar á fimm höggum yfir pari. Þessi erfiði verð til þess að Mickelson endaði mótið í þriðja sæti og kemst hann því ekki á Heimsmótið í Mexíkó sem hefst í næstu viku en aðeins 50 efstu kylfingar heimslistans komast inn og er hann í 55. sæti eftir helgina.

„Hann spilaði einfaldlega betur en ég,“ sagði Mickelson eftir hringinn.

Þessi árangur var engu að síður ekki þýðingarlaus því með þessum árangri afrekaði hann eitthvað sem aðeins tveimur kylfingum hefur tekist áður í sögu PGA mótaraðarinnar.

Þetta var fyrsta mótið sem Mickelson endar á meðal 10 efstu á tímabilinu á PGA mótaröðinni og hefur hann því endað á meðal 10 efstu að minnsta kosti einu sinni síðustu 30 tímabil.

Kylfingarnir sem einnig hafa afrekað þetta eru þeir Sam Snead (1934-1969) og Raymond Floyd (1963-1994).