Fréttir

Mikil aukning í spiluðum hringjum á völlum Keilis milli ára
Ólafur Þór Ágústsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 14. janúar 2021 kl. 10:44

Mikil aukning í spiluðum hringjum á völlum Keilis milli ára

Þrátt fyrir aðstæður í samfélaginu gekk árið 2020 vel hjá Golfklúbbnum Keili að sögn framkvæmdastjóra klúbbsins, Ólafs Þórs Ágústssonar.

Mikil fjölgun átti sér stað í spiluðum hringjum á árinu samanborið við árið 2019 en auk þess að fjölgunin hafi átt sér stað á Hvaleyrarvelli var sömuleiðis gríðarleg aukning á fjölda hringja á Sveinskotsvelli, 9 holu velli klúbbsins.

„Árið gekk bara ágætlega að mörgu leyti þrátt fyrir að erlendir kylfingar hafi alveg hreinsast út. Það sem vann það upp að hluta var hvað það fjölgaði á Sveinskotsvelli og það var fullt á Hvaleyrarvelli,“ sagði Ólafur í samtali við blaðamann Kylfings.

Samkvæmt rástímaskráningu klúbbsins voru alls leiknir 40.246 hringir síðasta sumar á Hvaleyrarvelli samanborið við 31.645 hringi árið 2019. Það er mikil fjölgun í leiknum hringjum á milli ára eða um 27%.

Fjölgunin var enn meiri á Sveinskotsvelli eða í kringum 83%. Alls voru 11.464 hringir spilaðir og kemur fram á heimasíðu klúbbsins að aldrei áður hafi sést jafn mikil fjölgun á leiknum hringjum milli ára.

„Undanfarin ár hafa tímarnir á milli 8 og hálf 12 fyrir hádegi verið þétt bókaðir og svo aftur á milli 15 og 19. Í fyrra sáum við hins vegar töluverða aukningu á milli hálf 12 og 15 og það sem spilar líklega þar inn í er að fólk var minna í vinnu og hafði meiri tíma. Þetta er í fyrsta skiptið sem við sjáum þá tíma svona vel notaða.“

Skipting leikinna hringja:

Hvaleyrarvöllur: 40.246 hringir
Sveinskotsvöllur: 11.464 hringir


Mynd: Ársskýrsla Keilis.


Mynd: Ársskýrsla Keilis.


15. holan á Hvaleyrarvelli. Mynd: [email protected]