Fréttir

Mikil högglengd bjargar ekki þessari tölfræði hjá DeChambeau
Bryson DeChambeau.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 28. október 2020 kl. 20:22

Mikil högglengd bjargar ekki þessari tölfræði hjá DeChambeau

Það hefur lítið verið rætt um annað en högglengdina hjá Bryson DeChambeau og hafa margir kylfingar viðurkennt að hafa reynt að auka kylfuhraða sinn til að slá lengra undanfarið.

DeChambeau vann Opna bandaríska meistaramótið í september á Winged Foot vellinum með sex höggum þar sem að hann var eini kylfingurinn sem lék undir pari í mótinu. Margir töluðu um að hann hefði einfaldlega keyrt yfir völlinn með högglengd sinni.

Miðað við viðtöl eftir mótið virðist DeChambeau ekki ætlar láta þar við sitja þar sem hann sagðist ætla prófa lengri sköft í dræverinn til að auka högglengdina. Þessi lengd virðist þó ekki bæta upp fyrir ansi slæma tölfræði DeChambeau á Augusta National vellinum en Masters mótið hefst þar eftir tvær vikur.

Einn helst tölfræðisérfræðingur Vestanhafs, Justin Ray, hefur reiknað það út að það séu 58 kylfingar sem eru með í Masters mótinu í ár sem hafa leikið fleiri en átta hringi á vellinum og er DeChambeau með verstu pútttölfræði af þeim öllum.

Það skal þó tekið fram að DeChambeau hefur bætt púttin hjá sér svo um munar og var hann í 10. sæti yfir bestu púttara mótaraðarinnar á síðasta tímabili. Eitt sem gæti hugsanlega útskýrt þennan mun er að kylfingar mega ekki notast við flatarkort sem sýnir kylfingum brot í flötum á Augusta National vellinum.

Því verður áhugavert að sjá hvernig DeChambeau gengur á Augusta National vellinum en hans besti árangur er 21. sætið og kom það þegar að hann var enn áhugamaður.