Fréttir

Molinari dregur sig úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu
Francesco Molinari.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 1. september 2020 kl. 22:44

Molinari dregur sig úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu

Annað risamót ársins, Opna bandaríska meistaramótið, hefst eftir rúmlega tvær vikur eða 17. september næstkomandi. Mótið sem átti upphaflega að fara dagana 18.-21. júní var fært vegna kórónuveirufaraldursins og verður því leikið dagana 17.-20. september á Winged Foot vellinum. Felstir af bestu kylfingum heims mæta þá til leiks.

Ítalinn Francesco Molinari tilkynnti aftur á móti í gær að hann yrði ekki á meðal keppenda en hann hefur ekki leikið mótshring síðan í febrúar.

Margir hafa velt því fyrir sér hver ástæðan sé og hafa einhverjir talað um einhverskonar kulnun. Molinari sendi þá frá sér tilkynningu í dag þar sem hann lagði áherslu á að allt væri í góðu lagi og hann myndi keppa þegar hann væri tilbúinn.

„Ég hef séð margar spurningar. Ég er ekki búinn að setja pokann á hilluna, ég tók mér bara aðeins frí til að eiga við breyttar aðstæður hjá fjölskyldunni. Það eru engin líkamleg vandamál. Það er engin kulnun og þetta kemur allt saman í ljós. Ég er ekki að skipta um útbúnað.“

„Ég mun snúa aftur fljótlega en ég mun ekki segja nákvæmlega hvenær því ég hef ekki ákveðið það og það mun fara eftir dagskránni og undirbúningi. Um leið og ég ákveð að snúa aftur þá munuð þið fá að heyra af því og ég vona að það verði mjög fljótlega. Takk fyrir allan stuðninginn á þessum tímum.“