Fréttir

Myndband: 84 ára kona setti niður 30 metra pútt og vann bíl
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 24. febrúar 2020 kl. 21:00

Myndband: 84 ára kona setti niður 30 metra pútt og vann bíl

Háskólakörfuboltinn í bandaríkjunum er ein vinsælasta íþrótta í Bandaríkjunum og eru fleiri þúsund manns sem mæta á hvern leik. Í hálfleik leikjanna er einhverjum heppnum áhorfendum boðið að mæta inn á völlinn og taka þátt í leik og geta verðlaunin oft verið ansi góð.

Á laugardaginn mættust Ole Miss háskólinn og Alabama háskólinn og fékk þá hin 84 ára gamla Mary Ann Wakefield tækifæri á að taka þátt í einum slíkum leik.

Að þessu sinni var þrautin þannig að hún átti að pútta yfir allan körfuboltavöllinn og tækist henni að setja púttið ofan í fengi hún nýjan Nissan Altima bíl í verðlaun.

Púttið var rétt tæplega 30 metra langt og bjuggust því áhorfendur ekki við öðru en að hún myndi missa. Wakefield var aftur á móti ekki á þeim buxunum og gerði hún sér lítið fyrir og setti púttið ofan í og fékk nýjan bíl að launum.

Púttið má sjá hér að neðan og eins og við var að búast voru fagnaðarlætin gífurleg.