Fréttir

Myndband: Aðstæður erfiðar á þriðja degi Genesis Invitational | Leik frestað í tvígang
Keegan Bradley.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 20. febrúar 2021 kl. 22:41

Myndband: Aðstæður erfiðar á þriðja degi Genesis Invitational | Leik frestað í tvígang

Þriðji hringur Genesis Invitational er farinn af stað að nýju eftir að stöðva þurfti leik vegna mikils vinds sem var á svæðinu. Völlurinn var þurr og harður fyrir og þegar boltar voru farnir að fjúka af flötum var leik frestað.

Keegan Bradley var einn af þeim kylfingum sem var farinn af stað og hóf hann leik á 10. brautinni. Holan er stutt par 4 hola sem menn reyna oft að slá inn á flöt í upphafshögginu. Hann náði því þó ekki en var inn á flöt í tveimur höggum. 

Púttið sem hann átti eftir var langt, eða rétt um 18 metrar að lengd, og því ekki um auðvelt pútt að ræða. Það sem gerði púttið enn erfiðara var að flötin hallaði öll frá honum og var vindurinn einnig að hjálpa honum og á þessum tímapunkti voru hviður að fara allt upp undir 15 m/s. Bradley púttaði púttinu og endaði boltinn á að rúlla út af flötinni og voru lýsendur aldeilis hissa en leik var frestað stuttu síðar.

Hér að neðan má sjá myndband af púttinu en stöðuna í mótinu má nálgast hérna.