Fréttir

Myndband: Aftur fjórpúttaði Woods
Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 16. febrúar 2020 kl. 15:19

Myndband: Aftur fjórpúttaði Woods

Eftir ágæta byrjun á Genesis Invitational mótinu hefur Bandaríkjamanninum Tiger Woods fatast flugið undanfarna daga og er ljóst að hann verður ekki í toppbaráttunni í kvöld þegar lokahringur mótsins fer fram.

Woods var í leit að sínum 83. titli á PGA mótaröðinni fyrir mótið sem haldið er á Riviera vellinum þar sem Woods lék í sínu fyrsta móti á mótaröðinni einungis 16 ára gamall.

Meðal þess sem hefur komið í veg fyrir betra skor hjá Woods er stutta spilið hjá honum en í gær fjórpúttaði Woods til að mynda á 13. holu vallarins.

Woods hefur ekki lagt það í vana sinn að fjórpútta en þetta var einungis í 14. skiptið á hans langa ferli sem það gerist. Hins vegar er þetta í annað skiptið í tveimur mótum og því ljóst að eitthvað er að angra hann í púttunum um þessar mundir.

Fyrir lokahring Genesis Invitational er Woods á 5 höggum yfir pari og jafn í 63. sæti. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.